Fjórða umferð 8-liða úrslita meistaradeildarinnar fór fram í gærkvöldi þar sem allar fjórar viðureignirnar kláruðust. Þar með er ljóst hvaða lið keppa í Final Four í meistaradeildinni en leikið verður helgina 7.-9. maí.
Barcelona-Real Madrid 3-1
Barcelona lagði erkifjendur sína í Real Madrid 78-84 og lokastaðan í einvíginu 3-1. Barcelona vann fyrsta leikinn og Real Madrid jafnaði en fyrstu tveir leikirnir voru í Barcelona. Eftir að hafa glatað heimavellinum var staða Börsunga erfið og Real Madrid gat klárað einvígið á heimavelli sínum Palacio Vistalegre. En draumastaða Madrínga breyttist fljótlega í martröð og fóru gestirnir og erkifjendurnir frá Barcelona með sigur í báðum leikjunum og tryggðu sér um leið sæti í undanúrslitum.
Maccabi Tel Aviv-Partizan Belgrad 1-3
Partizan Belgrad frá Serbíu kom á óvart með því að leggja Maccabi Tel Aviv frá Ísrael 3-1 í 8-liða úrslitunum en leikur liðsins í gærkvöldi endaði 76-67 Serbunum í vil. Partizan sem er stórveldi í Serbíu hefur átt frábært tímabil í meistaradeildinni og eru þeir að komast í fyrsta skipti síðan 1998 í Final Four en þeir urðu Evrópumeistarar árið 1992. Styrkur Partizan kom í ljós þegar þeir unnu fyrsta leikinn í Ísrael. Maccabi jafnaði 1-1 en næstu tveir leikirnir voru í Belgrad. Vel studdir af yfir 20.000 stuðningsmönnum fóru heimamenn með sigur af hólmi og komust áfram.
CSKA Moskva-Caja Laboral 3-1
CSKA tryggði sér sæti í Final Four með frábærum sigri á spænska stórliðinu Caja Laboral frá Vitoria. Lokatölur í leiknum voru 70-74 gestunum frá Rússlandi í vil. CSKA sem hefur verið eitt sterkasta lið Evópu undanfarin ár þurfti að hafa fyrir sínu til að komast í gegnum Caja Laboral. CSKA vann fyrstu tvo leikina sem voru í Moskvu nokkuð örugglega en sótti svo sigur til Spánar í gærkvöldi en Caja Laboral vann þriðja leikinn sem var í Vitoria eins og fjórði leikurinn.
Olympiakos-Asseco Prokom 3-1
Pólska liðið Asseco Prokom frá Gdynia er fyrsta pólska liðið til að komast í 8-liða úrslit meistaradeildarinnar. Fengu þeir afar verðugt verkefni en gríska stórliðið Olympiakos reyndist þeim einu númeri of stórt. Fyrstu tveir leikirnir voru í Aþenu og unnu rauðir þá tvo leiki. Þegar einvígið fór til Póllands unnu Prokom þriðja leikinn í Gdynia með þremur stigum en leikurinn í gærkvöldi endaði 70-86 rauðum í vil.
Final Four í París 7.-9. maí
Barcelona-CSKA Moskva
Olympiakos-Partizan Belgrad
Mynd: Leikmenn Partizan fögnuðu innilega í gær en þeir eru komnir á kortið í Evrópu á ný. Studdir af frábærum stuðningsmönnum eru þeir orðnir með sterkustu liðum Evrópu



