Jón Arnór Stefánsson gerði 7 stig í dag þegar Zaragoza mátti fella sig við 75-88 ósigur á heimavelli í ACB deildinni á Spáni. Labor Kutxa kom í heimsókn þar sem Andres Nocioni gerði 17 stig fyrir Kutxa. Jón Arnór var aukareitis við stigin 7 með 4 fráköst og 2 stoðsendingar en stigahæstur í liði Zaragoza var Joseph Jones með 18 stig.
Valladolid lá 91-81 á útivelli gegn Fuenlabrada. Hörður Axel Vilhjálmsson fékk að spreyta sig í tæpar fimm mínútur í leiknum og náði af einum þrist sem vildi ekki niður. Hann var með tvö fráköst en stigahæstur í liði Valladolid var Armon Johnson með 23 stig og 4 fráköst en James Feldeine var með 24 stig í liði Fuenlabrada.
Nú er ljóst hvaða átta lið komast í úrslitakeppnina og með tapinu í dag féll Zaragoza niður í 8. sæti ACB deildarinnar en þrjú lið hafa nú 18 sigra og 15 tapleiki en það eru Zaragoza, Cajasol og Labor Kutxa og í dag af þessum þremur liðum stendur Zaragoza verst innbyrðis og er í 8. sæti.
Síðasti leikur Jóns Arnórs og Zaragoza er á útivelli þann 25. maí næstkomandi gegn UCAM Murcia en Hörður Axel og Valladolid kveðja deildina á heimavelli gegn Gran Canaria en nokkuð er síðan að ljóst var að Valladolid myndi falla niður um deild. Mikilvægt er fyrir Zaragoza að hafa sigur í lokaumferðinni og freista þess að ná 6.-7. sætinu og sleppa þannig við að mæta Real Madrid í fyrstu umferðinni sem eiga deildarmeistaratitilinn næsta vísan.