spot_img
HomeFréttirLjónynjurnar bitu frá sér í fjórða og leiða 1-0

Ljónynjurnar bitu frá sér í fjórða og leiða 1-0

Fyrsta viðureign bikarmeistara Njarðvíkur og Hauka í úrslitum Iceland Express deildar kvenna sveik engan. Um magnaða hörkuviðureign var að ræða, allt benti til þess að Haukar færu með sigur af hólmi en á taugatrekkjandi lokaspretti lönduðu Njarðvíkingar sigri er þær hrukku í fluggír, lokatölur 75-73. Njarðvík leiðir því 1-0 í einvíginu en liðin mætast í sínum öðrum leik á Laugardag í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði.
Lele Hardy opnaði úrslitaseríuna með þriggja stiga körfu fyrir Njarðvíkinga en liðunum tókst fremur illa upp við að skora á fyrstu mínútunum á meðan þau voru að hlaupa af sér hornin. Petrúnella Skúladóttir var sett til höfuðs Jence Rhoads og þegar hún fór út af tók Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir við og þeirra beið ærinn starfi.
 
Vörn gestanna frá Hafnarfirði var til fyrirmyndar frá fyrstu mínútu og Njarðvíkingar gerðu þeim verkið auðveldara þar sem þær Lele Hardy og Baker-Brice voru tregar til að koma öðrum liðsfélögum sínum í gang heldur reyndu of mikið upp á eigin spýtur. Haukar leiddu 15-19 að loknum fyrsta leikhluta.
 
Haukar gerðu fjögur fyrstu stigin í öðrum leikhluta áður en Hardy mætti með Njarðvíkurþrist en eftir 15 mínútna leik voru aðeins þrír Njarðvíkingar búnir að skora á meðan sex liðsmenn Hauka voru komnir á blað og Hafnfirðingar meira að gera hlutina eins og lið á meðan heimakonur voru fremur einhæfar í sínum sóknarleik.
 
Jence og Tierny létu Njarðvíkinga finna fyrir því og þristur frá Jence breytti stöðunni í 20-30 Hauka í vil og staðan svo 27-39 fyrir gestina þegar blásið var til hálfleiks. Jence var komin með 13 stig í hálfleik hjá Haukum og Tierny tók aðeins 20 mínútur í það að vefja saman tvennu, 15 stig og 10 fráköst. Hjá Njarðvík var Lele Hardy með 13 stig í leikhléi. Njarðvíkingar tóku aðeins eitt vítaskot allan fyrri hálfleikinn og voru ragar við að sækja í teiginn þar sem Jenkins réði ríkjum.
 
Skotnýting liðanna í hálfleik:
UMFN: Tveggja 38,4% – þriggja 13,3% og víti 100% (1/1)
Haukar: Tveggja 48,2% – þriggja 50% og víti 66,6%
 
Sama hvað Njarðvíkingar reyndu áttu þeir engin svör við Haukum í þriðja leikhluta. Heimakonur voru klaufalegar í aðgerðum sínum, fóru óvarlega með boltann og réðu ekkert við þær Jence og Tierney. Þegar loks tókst að koma einhverjum böndum yfir þetta magnaða par Hafnfirðinga þá sleit Margrét Rósa Hálfdánardóttir sig lausa og jók muninn í 39-54 fyrir Hauka.
 
Þegar átta sekúndur lifðu þriðja leikhluta fengu Njarðvíkingar dæma á sig óíþróttamannslega villu, Jence Ann hélt á línuna og smellti niður vítunum af miklu öryggi og Haukar leiddu 46-60 fyrir fjórða og síðasta hluta. Ekkert benti til þess að Njarðvíkingar ættu séns í þessum leik, annað kom þó á daginn!
 
Í fjórða leikhluta höfðu Njarðvíkingar lagt frá sér svæðisvörnina og fóru afur í maður á mann vörn. Eftir 6-2 byrjun grænna tóku Haukar leikhlé, eftir 13-2 byrjun grænna fóru Haukar að efast og þegar Salbjörg Sævarsdóttir minnkaði muninn í 61-64 fyrir Njarðvíkinga þá fór heldur betur kliður um salinn og úr varð svakalegur endasprettur. Þess má geta að Salbjörg átti mjög góðan dag í Njarðvíkurliðinu og vafalítið ein af hennar stærstu frammistöðum á ferlinum.
 
Vörn heimakvenna var komin í gang, þær börðust í öllum sóknarfráköstum og tækifærin urðu stundum tvö til þrjú talsins í hverri sókn. Grunnmistök eins og að stíga ekki út urðu Haukum að falli og þá var farið töluvert bensín af tanki þeirra Jence og Tierny en þær voru engu að síður frábærar í kvöld.
 
Lele Hardy kveikti í kofanum þegar hún minnkaði fyrst muninn í 68-69 og kom Njarðvík svo yfir 70-69 með stökkskoti í teignum en um mínúta var til leiksloka þegar hér var komið við sögu. Liðin skiptust á því að skora þennan lokasprett, Jenkins smellti niður tveimur vítum og 70-71 fyrir Hauka. Hardy svarar í næstu sókn og staðan 72-71 fyrir Njarðvík.
 
Jenkins skaut Haukum framúr að nýju 72-73 en Lele Hardy kom Njarðvík í 74-73 með erfiðu skoti í teignum þegar 13 sekúndur voru eftir. Í næstu Haukasókn fékk Margrét Rósa fínt skotfæri til að gera út um leikinn en skotið geigaði, Njarðvík náði frákastinu, Haukar brutu og grænar kláruðu leikinn á vítalínunni. Sannkölluð úrslitasería er hafin, fyrsti leikurinn gefur væntingar um frábæra rimmu en í kvöld voru það Njarðvíkingar sem sýndu mikinn karakter. Haukar velgdu bikarmeisturunum vel undir uggum, áttu frábærar 30 mínútur en hlutir eins og að leyfa Njarðvík að taka 25 sóknarfráköst eru einfaldlega of stór biti að kyngja í jafn mikilvægum leikjum.
 
Liðin mætast í sínum öðrum leik á laugardag og þá í Schenkerhöllinni í Hafnarfirið en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki verður Íslandsmeistari.
 
 
Tölur leiksins: 75-73 (15-19, 12-20, 19-21, 29-13)
 
Heildarskor:
 
Njarðvík: Lele Hardy 33/18 fráköst, Shanae Baker-Brice 18/11 fráköst, Salbjörg Sævarsdóttir 13/6 fráköst, Ólöf Helga Pálsdóttir 5/6 fráköst, Petrúnella Skúladóttir 4, Ína María Einarsdóttir 2, Andrea Björt Ólafsdóttir 0, Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir 0/4 fráköst, Harpa Hallgrímsdóttir 0/5 fráköst, Eyrún Líf Sigurðardóttir 0, Erna Hákonardóttir 0, Ásdís Vala Freysdóttir 0.
 
Haukar: Tierny Jenkins 30/17 fráköst, Jence Ann Rhoads 22/8 fráköst/10 stoðsendingar/4 varin skot, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 10, Gunnhildur Gunnarsdóttir 5/4 fráköst, María Lind Sigurðardóttir 4, Sara Pálmadóttir 2/3 varin skot, Sólrún Inga Gísladóttir 0, Inga Sif Sigfúsdóttir 0, Ína Salóme Sturludóttir 0, Auður Íris Ólafsdóttir 0, Lovísa Björt Henningsdóttir 0.
 
Byrjunarliðin:
UMFN: Shanae Baker-Brice, Petrúnella Skúladóttir, Ólöf Helga Pálsdóttir, Salbjörg Sævarsdóttir og Lele Hardy.
Haukar: Jence Rhoads, Margrét Rósa Hálfdánardóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, María Lind Sigurðardóttir og Tierny Jenkins.
 
Mynd/ Salbjörg Sævarsdóttir hafði ríka ástæðu til að brosa en hún lék vel með Njarðvík í kvöld og þá sérstaklega þegar allt var í ,,járnum."
 
Fréttir
- Auglýsing -