Þær áhyggjur voru þó fljótlega horfnar því að Tindastólsmenn byrjuðu leikinn af gríðarlegum krafti í vörninni og voru hreinlega í andlitinu á gestunum alveg frá fyrstu mínútu. Njarðvík komst ekki á blað fyrr en eftir 3 mínútur og þá voru Stólar búnir að gera 12 stig. Troðsla frá Jackson og þristur frá Loga breyttu stöðunni í 12-5 og menn áttu von á að nú myndu ljónin hrista af sér slenið. Annað kom þó á daginn og eftir snöggt leikhlé hjá Costa þá héldu heimamenn einfaldlega áfram að keyra yfir gestina og kláruðu fyrsta fjórðung 25-9. Sama keyrslan hélt svo áfram í öðrum fjórðung og þristur frá Hannesi kom Stólum í 46-20 þegar tæpar 4 mínútur voru til hálfleiks. Game over og Síkið hristist, þetta var Tindastólsliðið sem menn voru búnir að bíða eftir að sjá.
Staðan var 51-28 í hálfleik og heimamenn áttu átta fyrstu stig seinni hálfleiks. Restin af leiknum var hálgert formsatriði en þó voru nokkur tilþrif sem glöddu áhorfendur, ekki síst öflugar troðslur frá Björgvin H. Ríkharðssyni sem átti fínan leik í dag í sókn og vörn, skilaði 24 stigum, 9 fráköstum og stal boltanum 5 sinnum auk þess að eiga 5 stoðsendingar. Frábær leikur frá kappanum. Samb var stigahæstur Stóla með 29 stig auk þess að rífa niður 13 fráköst og aðrir voru allir að skila sínu, sérstaklega varnarlega.
Njarðvíkingar virkuðu þreyttir og vonlausir frá byrjun og ljóst að varnarleikur heimamanna sló þá út af laginu. Ekki bætti á að lykilleikmenn virkuðu hálfþreyttir og einfaldlega ekki tilbúnir í leikinn. Jackson og Bonneau skiluðu fimmtán stigum hvor en flest voru þau harðsótt. Ungu leikmennirnir hjá liðinu geta þó borið höfuðið hátt þrátt fyrir stórt tap, voru að sýna fínar rispur inn á milli en langt frá því að vera nóg í kvöld.
Mynd: Björgvin treður niður 100asta stiginu
Mynd og umfjöllun / Hjalti Árnason



