spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaLjónin fyrst til þess að leggja Stólana 

Ljónin fyrst til þess að leggja Stólana 

Njarðvíkingar urðu í kvöld fyrstir liða til þess að leggja topplið Tindastóls að velli í Bónusdeild karla. Hörkuslagur í IceMar Höllinni þar sem Njarðvíkingar leiddu allan leikinn og gerðu vel að halda toppliðinu fjarri. Lokatölur 98-90 Njarðvík í vil sem voru með 50% þriggja stiga nýtingu í kvöld. 

Heimamenn í Njarðvík voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. Leiddu 51-43 í leikhléi og voru að hitta flott úr þriggja, 8-16, og 50% nýting í fyrri hálfleik. Staðan 30-21 að loknum fyrsta hluta en annar leikhluti var hnífjafn sem Stólarnir unnu 21-22 og staðan því 51-43 í hálfleik.

Brandon og Dwayne voru beittir hjá Njarðvík í fyrri, Brandon með 17 og Dwayne 12 en Badmuns var með 13 hjá gestunum og Drungilas 12. Tveir voru komnir á villuradarinn í fyrri, Ragnar hjá Tindastól og Julio hjá Njarðvík báðir með þrjár villur.

Njarðvíkingar leiddu með átta stigum í hálfleik og sex að loknum þriðja leikhluta, 74-68. Hörku þriðji leikhluti þar sem Dwayne var að láta til sín taka Njarðvíkurmegin og Ivan með fínar rispur gestamegin. 

Snjólfur Marel opnaði fjórða með þrist fyrir Njarðvík og Milka bætti um betur með tveimur í viðbót áður en Drungilas svaraði í sömu mynt, Drungilas lék vel í kvöld með 25 stig og 8 fráköst. Stólarnir komust nærri á lokasprettinum, minnkuðu muninn í 94-90 en heimamenn í Njarðvík létu ekki ná sér og unnu verðskuldaðan sigur. 

Njarðvíkingar því með tvo sigra og tvo tapleiki í fyrstu fjórum umferðunum og búnir að vinna tvo í röð en Tindastóll með þrjá sigra og sitt fyrsta tap í kvöld. Brandon var með 28 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar hjá Njarðvík og Dwayne bætti við 21 stigi svo kom Milka með 17 stig af bekknum og þar af þrjá þrista. Hjá Tindastól var Drungilas stigahæstur með 25 stig, Badmus 19 og Ivan með 18 af bekknum. 

Tölfræði leiks

Myndasafn (Gunnar Jónatansson)

Fréttir
- Auglýsing -