spot_img
HomeFréttirLitlu slátrararnir alls ekki litlir lengur

Litlu slátrararnir alls ekki litlir lengur

Keflavík lyfti Íslandsmeistaratitlinum í kvöld eftir sigur á Snæfell í úrslitaeinvígi Dominos deildar kvenna. Keflavík var sterkari aðilinn frá fyrstu mínútu og unnu að lokum góðan 70-50 sigur á Snæfell. 

 

 

Fyrir leik:

Staðan var 2-1 fyrir Keflavík sem gat því tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri. Snæfell vann síðasta leik í Stykkishólmi og því einhvað sjálfstraust mögulegt í liðinu. Birna Valgerður Benónýsdóttir var líkt og komið hefur fram í banni í leiknum eftir að hafa verið vikið úr húsi í síðasta leik. Stuðningsmenn Keflavíkur sungu fyrir leik „Vinnum fyrir Birnu” en ljóst var að miðað við framlag hennar í fyrstu leikjunum var stórt skarð hoggið í lið Keflavíkur. 

 

Gangur leiksins:

Keflavík átti algjöra draumabyrjun í leiknum. Erna Hákonardóttir setti tvær þriggja stiga körfur í jafn mörgum skotum á fyrstu mínútum leiksins og Keflavík komst í 12-2 forystu strax í upphafi. Keflavík var ákveðnara, sótti að körfunni og spiluðu flotta vörn. Fyrir vikið fóru þær með 28-16 forystu eftir fyrsta leikhluta. 

 

Annar leikhluti var jafnt en gestunum gekk illa að brúa bilið á milli liðanna. Keflavík var einfaldlega hungraðra í fyrri hálfleik. Þær börðust meira eftir lausum boltum og voru sterkari á meðan öll stig Snæfells voru þvingaðri og erfiðari. Aaryn Ellenberg var með nærri 60% skota Snæfells í fyrri hálfleik á meðan til að mynda Berglind og Gunnhildur Gunnarsdætur voru með þrjú skot saman. Staðan í hálfleik 42-31 fyrir Keflavík og tók Ingi Þór langan hálfleik þar sem margt þurfti að skoða. 

 

Það sama var uppi á teningnum í þriðja leikhluta. Keflavík tókst ekki að stinga algjörlega af og Snæfell minnkaði muninn frekar lítið. Staðan að honum loknum 55-47 fyrir Keflavík en heimakonur höfðu lokið mörgum sóknum á því að tapa boltanum vegna skotklukkunar og því ljóst að vörn Snæfells var að herðast. 

 

Við tóku taugatrekktar mínútur þar sem hvorugu liðinu tókst að setja stig á töfluna í þrjár mínútur í upphafi lokafjórðungsins. Ofan á það var Snæfell ekki með stig í fjórða leikhluta fyrr en tvær mínútur voru eftir af leiknum. Vörn Keflavíkur varð ógnarsterk og ekkert datt ofan í hjá gestunum. Skotin fóru að detta hjá Keflavík og ljóst að sigurinn var þeirra. Ógurleg fagnaðarlæti brutust svo út í lokin þegar ljóst var að Keflavík væri Íslandsmeistari árið 2017 eftir magnaðan 70-50 sigur á Snæfell og þar með 3-1 sigur í úrslitaeinvíginu. 

 

Hetjan: 

Arianna Moorer fær þann heiður enn og aftur. Hún er kannski eftirminnilegasti leikmaður sem spilað hefur hér þegar litið er til tilþrifa og yfirburðar tölfræði en hún er nákvæmlega leiðtoginn sem Keflavík þurfti. Stjórnar sóknarleiknum frábærlega, spilar gríðarlega góða vörn, sýndi algjörlega yfirburðar skynsemi og ákvarðanatökur á stórum augnablikum. Hún endaði þennan leik með 29 stig, 19 fráköst og 5 stoðsendingar. 

 

 

Kjarninn:

Það verður ekki mikið einfaldara, Keflavík er Íslandsmeistari árið 2017. Fyrir tímabilið var liðinu spáð 6. sæti deildarinnar, leikmenn voru reynslulausar og óvíst með hvernig það myndi spila gegn reynslumeiri liðum. Allar þessar áhyggjur fóru útum gluggan strax í fyrstu umferðunum þegar Keflavík fór að sýna afburðarbaráttu, magnaðann varnarleik auk þess sem ljóst væri að þær væru einfaldlega frábærar í körfubolta. Keflavík fékk fljótlega nafnið „Litlu slátrarnir“ er liðið fór að sigra hvern andstæinginn á fætur öðrum. 

 

Lið Keflavíkur stóðst allar hindranir sem á vegi þeirra urðu á tímabilinu, því þrátt fyrir draumatímabil þá er það alls ekki áfallalaust. Skipt var um erlendan leikmann í nóvember, liðið fór í gegnum úrslitaleiki gegn sterkum liðum og missa svo út mjög sterkan leikmann í bann í lokaleiknum. Ekki í eitt augnablik hefur liðið leikið eins og reynslulaust á þessum augnablikum og fyrir vikið standa þær uppi sem sigurvegarar. 

 

Snæfell getur þrátt fyrir allt vel við unað, liðið er í fjórða skipti í röð í úrslitaeinvíginu og er liðið orðið stórveldi í íslenskum kvennakörfubolta. Margir sjálfboðaliðar leggja mikið á sig í litlu samfélagi og magnað að félagið sé komið á þennan stall í dag. Titillinn varð ekki þeirra þetta árið og eins og sönnu keppnisfólki sæmir svíður það eðilega. Keflavík var þegar upp var staðið betra lið en Snæfell í einvíginu. Mikið lág á herðum Aaryn Ellenberg en aðrir lykilmenn fundu sig ekki í dag. 

 

Staðreyndin er sú að Keflavík er búið að vinna íslands- og bikarmeistaratitilinn á þessu tímabili og engin sem getur kallað þær litlar lengur. Frá og með þessum degi eru þetta einfaldlega „Slátrararnir“ frá Keflavík. 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndaalbúm #1 (Skúli B. Sigurðsson)

Myndaalbúm #2 (Davíð Eldur)

Myndaalbúm #3 (Þorsteinn Eyþórsson)

Myndaalbúm #4 – Fögnuður eftir leik (Davíð Eldur)

 

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

Mynd / Skúli B. Sigurðsson

 

 

Myndir frá fögnuði Keflavíkur:

Fréttir
- Auglýsing -