spot_img
HomeFréttirLíklega er aftara krossband slitið

Líklega er aftara krossband slitið

Ólafur Helgi Jónsson fyrirliði Njarðvíkinga meiddist á dögunum í leik með unglingaflokki félagsins. Ólafur hafði farið mikinn með Njarðvíkingum í Domion´s deildinni eftir áramót en fyrir yfirstandandi tímabil var Ólafur að jafna sig á úlnliðsbroti svo það hefur gengið á ýmsu hjá þessum unga og öfluga leikmanni.
 
,,Myndirnar eru skýrar og fínar og eftir að Sveinbjörn Brandsson læknir hafði fengið annað álit bar þeim saman um að fremra krossbandið væri í lagi en að hið aftara væri slitið,” sagði Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkinga í samtali við Karfan.is í dag.
 
,,Þetta þykja sérstök tilvik í íþróttum, þ.e. þegar aftari krossbönd slitna. Það er algengara að sjá það jafnvel í bílslysum. Oftast slitna svo krossböndin við festingu en í tilfelli Ólafs þá slitnar það fyrir miðju bandi, af hverju og hvernig er ekki vitað en ef við tökum mið af því að þetta séu réttar upplýsingar þá er aftara bandið farið,” sagði Einar en ekki er framkvæmd aðgerð við slitum í aftari krossböndum.
 
,,Það er bara endurhæfing og stíf þjálfun gæti mögulega þýtt að Ólafur væri kominn af stað með okkur strax næsta haust,” sagði Einar svo það eru í sjálfu sér jákvæðar fréttir víst í þetta óefni var komið hjá fyrirliða Njarðvíkinga.
 
,,Eftir tvær til þrjá vikur verður staðan á Ólafi endurmetin þar sem enn eru bólgur sem koma í veg fyrir endanlegt mat. Þangað til annað kemur í ljós þá ætlum við að vera bjartsýnir á að okkar maður verði úti á gólfi með okkur í haust,” sagði Einar að lokum.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -