22:40
{mosimage}
(Jón Arnór lék á als oddi með KR í kvöld)
KR hefur tekið toppsætið í Iceland Express deild karla eftir 82-80 sigur á Grindavík í uppgjöri toppliðanna í DHL-Höllinni. Leikurinn var hin besta skemmtun og var það Jón Arnór Stefánsson sem gerði út um leikinn með erfiðu teigskoti og breytti stöðunni í 82-77 þegar 17 sekúndur lifðu leiks. Grindvíkingum tókst að setja niður þrist og minnka muninn í 82-80 en lengra komust þeir ekki og KR klifruðu á toppinn einir.
Jón Arnór Stefánsson átti góðan dag í liði KR með 25 stig, 4 fráköst og 1 stoðsendingu. Hjá Grindavík var Þorleifur Ólafsson sterkastur með 26 stig og 4 fráköst. Tæplega klukkustundar töf var á leik liðanna í kvöld þar sem leikklukkan virkaði ekki sem skyldi og er það miður en klukkan í DHL-Höllinni er af sömu gerð og sú í Laugardalshöll. Spurning hvort Frónverjar sem keyptu þessar klukkur á sínum tíma hafi ekki keypt köttinn í sekknum?
Þorleifur Ólafsson opnaði leikinn fyrir gestina með þriggja stiga körfu en snögglega hrökk Jón Arnór í gang og sallaði niður tveimur þristum með skömmu millibili og staðan orðin 12-8 fyrir KR. Guðlaugur Eyjólfsson lét sitt ekki eftir liggja í þristakeppninni og kom Grindavík í 12-13 og enn önnur forystubreytingin varð þegar Pálmi Freyr setti þrist fyrir KR og staðan 19-18. Grindvíkingar voru svo sterkari á lokasprettinum þar sem þeir náðu fimm stiga sókn, tæknivíti var dæmt á Benedikt á hliðarlínunni og Brenton skoraði úr þriggja stiga körfu þar sem brotið var á honum. Staðan 21-23 fyrir Grindavík eftir fyrsta leikhluta.
{mosimage}
(Einar Bollason hrærður við framtak KR-inga)
Einar Gunnar Bollason var hylltur sérstaklega með forláta blómvendi eftir fyrsta leikhluta í kvöld en kappinn fagnar í dag 65 ára afmæli sínu og tók stúkan vel undir í afmælissöngnum og ekki frá því að gestir hafi séð tár á hvarmi hjá Einari.
Páll Axel Vilbergsson var í strangri gæslu í allt kvöld og gerði aðeins 12 stig í leiknum og munaði um minna fyrir Grindavík en kappinn hefur verið að fara yfir 30 og 40 stigin í síðustu leikjum. Vörn heimamanna var fyrnasterk í uppafi annars leikhluta og Grindvíkingar hikstuðu töluvert í sókninni. Þorleifur Ólafsson fékk sína þriðju villu skömmu fyrir hálfleik og Jón Arnór Stefánsson kom KR í 45-39 með þriggja stiga körfu og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Jón Arnór var með 16 stig fyrir KR í hálfleik en Brenton Birmingham var með 12 stig í liði Grindavíkur.
Í fyrri hálfleik höfðu Grindvíkingar tekið upp á því að leika svæðisvörn og héldu því áfram í seinni hálfleik. Eins og svæðisvörninni er tamt þá myndast oft á henni glufur og þær nýttu KR oft vel og Jakob Örn Sigurðarson kom KR í 48-39 með þriggja stiga körfu. Margir héldu að hér myndu KR stinga af en Þorleifur Ólafsson var á öðru máli. Þorleifur fékk snemma sína fimmtu villu og tjáði óánægju sína með því að stela boltanum og troða með tilþrifum og bæta við þriggja stiga körfu í næstu sókn og minnka muninn í 50-46. Jakob Örn og Jón Arnór leiddu KR í þriðja leikhluta og komu sínum mönnum í vænlega stöðu fyrir fjórða og síðasta leikhlutann, 71-55.
Grindvíkingar voru ekki af baki dottnir og gerðu 9 fyrstu stig fjórða leikhluta og staðan orðin 71-64. KR gerði vel framan af fjórða leikhluta að halda Grindavík fjarri en eftir því sem leið á leikhlutann nálguðust Grindvíkingar.
{mosimage}
(Darri Hilmarsson átti góða spretti fyrir KR í kvöld)
Grindavík náði 7-0 áhlaupi og staðan var orðin 78-74 fyrir KR þegar um tvær mínútur voru til leiksloka. Páll Kristinsson í Grindavík, Helgi Magnússon og Jason Dourisseau í KR voru allir með 5 villur þegar rétt rúm mínúta lifði leiks og spennan gríðarleg.
Vítanýting Grindvíkinga á lokasprettinum var hræðileg en þeir fengu sex víti og settu aðeins niður tvö. Nökkvi Már Jónsson brenndi af þremur vítum og Páll Axel einu og mega þeir vel naga sig í handarbökin fyrir vikið!
Jón Arnór Stefánsson rak svo smiðshöggið þegar 17 sekúndur lifðu leiks. Hann vippaði sér upp í erfitt teigskot en boltinn vildi niður og staðan orðin 82-77 fyrir KR. Eins og Grindvíkingum er lagið þá settu þeir þrist og staðan 82-80 þegar um 4 sekúndur voru eftir. KR hélt boltanum og voru ekki komnir með skotrétt svo þeir tóku innkast og hentu boltanum fram og við það brann upp leiktíminn og röndóttir fögnuðu sigri.
Sem fyrr átti Darri Hilmarsson ljómandi spretti í KR-liðinu en þeirra besti maður í kvöld var Jón Arnór með 25 stig. Jason gerði 17 stig og tók 10 fráköst, Jakob 14 og þeir Fannar og Darri voru báðir með 8 stig en Darri var auk þess með 8 fráköst.
Þorleifur Ólafsson fór á kostum í síðari hálfleik og setti alls 26 stig, Brenton Birmingham var með 19 stig og Páll Axel Vilbergsson sem var fjarri sínu besta setti aðeins 12 stig.
KR mætir Stjörnunni í næstu umferð og Grindavík mætir Keflavík í Röstinni.
Tölfræði leiksins
http://server4.mbt.lt/prod/kki/index.php/b19sYW5nPWhlJm9fc2Vhcz0xNSZvX2xlYWc9MiZmdXNlYWN0aW9uPWdhbWVzLm1haW4mZ19pZD0xMzg=
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}



