Strákarnir úr leikmannahópnum á EuroBasket í sumar svara nokkrum spurningum um undirbúninginn, upplifunina og hvað tekur við hjá þeim á nýju ári.
Lífið eftir EM
Nafn: Hörður Axel Vilhjálmsson
Aldur: 27
Fjöldi landsleikja: 48
Félagslið: Nymburk
Var undirbúningurinn mjög frábrugðinn því sem við myndum oftar en ekki kalla “minni” verkefni?
Já þetta var öðruvísi sumar, maður fann fyrir miklum meðbyr frá allt og öllum sem að landsliðinu komu.
Hvernig minnist þú álagsins við undirbúning EM og meðan á því stóð?
Álagið á Eurobasket var svakalega mikið, of mikið en líka útfrá hvernig við spilum þar sem það tekur mikla orku frá manni að vera á þessum krafti allan leikinn alla leiki.
Aðkoma þjóðarinnar, funduð þið fyrir áhuga almennings á verkefninu?
já við fundum fyrir miklum áhuga, sem fór samt fram úr öllum væntingum á mótinu sjálfu. Eitthvað einstakt átti sér stað í Berlín.
Hvernig var að vinna úr pressunni sem fylgdi þessu?
Það var í raun enginn pressa á okkur, við mættum á Eurobasket til þess að njóta þess að spila körfubolta saman sem og við gerðum.
En að umgangast stórstjörnunar, hvernig var það?
Inná vellinum var þetta bara eins og að spila við hvern annan spilara, þar reynir maður ekki að gera nein greinarmun, en það var svolítið sérstakt að fara á videofundi og vera að fara yfir hreyfingar Pau Gasol, Teodosic, Bjelica, Llull og fleiri og þykjast vera með leiðir til þess að stoppa þá. Sem gekk svo bara mun betur en við þorðum að vona, það var mjög skemmtilegt.
Fyrsta daginn að fara inn í matsal og sjá Dirk þar eitthvað að fíflast á þýsku var frekar súreallískt, þangað til Jón labbaði til hans og reif í spaðann á honum og sagði whats up you old fuck, you still owe me that money since I beat you in our last one on one. (man ekkert hvað hann sagði, en sagan er betri ef það var eitthvað svona), þá áttaði maður sig á að hann væri bara eins og hver annar maður.
Fannst þér meira stress fylgja undankepninni, og því að þurfa að tryggja sér sæti á lokamótinu, heldur en sjálfu mótinu?
Nei get ekki sagt það. Það var ekkert meiri pressa eða stress fyrir þessa leiki heldur en aðra, maður undirbýr sig alltaf svipað og reynir að láta ytri áreiti ekkert á sig fá. Í enda dagsins er þetta bara leikur sem er spilaður til þess að njóta og hafa gaman.
Hvernig ert þú að melta/meta verkefnið nú þegar nokkuð er liðið frá Berlín?
Þetta var bara ótrúleg upplifun frá byrjun til enda.
Þetta er klárlega það skemmtilegasta og minnistæðasta sem ég hef gert inn á körfuboltavelli.
Við náðum að vekja athygli á Íslenskum körfubolta bæði innan lands og utan. Við gerðum eitthvað sem við getum allir verið stoltir af sem er samt svolítið skrýtið að segja eftir að hafa ekki unnið leik á mótinu.
Breytti þetta verkefni þínum framtíðarplönum í körfunni?
Þetta breytti kannski ekki framtíðarplönum mínum gagnvart körfubolta, en breytti þeim gagnvart landsliðinu og held að það eigi við um okkur alla, að nú munum við flestir ef ekki allir gera allt í okkar valdi stendur til þess að fá að upplifa þetta aftur.
Hvernig var að koma aftur heim og í hið daglega líf?
Ég hef ekki verið það heppinn að hafa farið heim til Íslands eftir Eurobasket. En það tók bara við sama líf og ég hef lifað síðastliðin ár í atvinnumennsku en ég færði mig um land fór til Grikklands og svo síðar til Tékklands.
Hvað tekur við núna?
Það hlýtur að taka við bara áfram haldandi vinna, reyna að breyta þessum meðbyr sem er með hreyfingunni í eitthvað áþreifanlegt, Nú er tíminn til þess að gera hvað sem við getum til að stimpla Ísland almennilega á kortið sem þjóð sem er frambærileg í körfubolta.
Stefnir þú á EuroBasket 2017?
Ég stefni á að gera allt sem í mínu valdi stendur til að reyna að gera það að veruleika.