spot_img
HomeFréttirLewis Clinch Jr leiddi Grindvíkinga í 4-liða úrslit

Lewis Clinch Jr leiddi Grindvíkinga í 4-liða úrslit

 

Fyrir leik
 

 

Tímabilið var undir í Grindavík í kvöld. Bæði liðin voru búin að vinna sína heimaleiki og einvígið í járnum, samanlögð staða 359-355, Grindavík í vil. Mustad-höllin var orðin troðfull korteri fyrir leik og mikil stemming í húsinu. Græni drekinn lét vel í sér heyra og góð stemming báðum megin í stúkunni.

 

Grindvíkingar voru staðráðnir í að verja vígið og gestirnir að fella það. Tap í kvöld myndi þýða snemmbúið sumarfrí en sigur sæti í 4-liða úrslitum og einvígi gegn Stjörnunni.
 

Í upphafi leiks
 

Stemmingin í stúkunni var góð og spennustigið inná vellinum hátt. Bæði lið reyndu erfið skot og varnir beggja liða spiluðu af hörku en þó var engin villa flautuð fyrstu 7 mínúturnar og aðeins 6 í heildina í leikhlutanum. Þórsarar virtust ætla að byrja betur, komust í 12-16 en þá kom góður kafli hjá heimamönnum þar sem þeir skoruðu 12 stig í röð án þess að gestirnir næðu að svara, staðan orðin 24-16. Þórsarar létu þó ekki slá sig algjörlega útaf laginu, staðan 26-21 eftir fyrstu 10 mínúturnar.

 

Leikur áhlaupa
 

Það er gömul saga og ný að körfubolti er leikur áhlaupa og leikurinn í kvöld var engin undantekning. En í hvert skipti sem Þórsarar tók reyndu áhlaup svöruðu Grindvíkingar og héldu muninum í kringum 10 stigin.
 

Grindavík fór langt á baráttunni í fyrri hálfleik, unnu marga lausa bolta, tóku fráköst eða tippuðu úr erfiðum stöðum á liðsfélaga, en þeir voru 29-17 yfir í fráköstum. Síðasta sókn leikhlutans endaði svo með bombu frá Þorsteini Finnbogasyni sem var eina 2 metra fyrir utan þriggja, hætti við að senda á Lalla og lét í staðinn rigna beint ofan í og Grindavík 15 stigum yfir í háfleik, 51-36.

Atvikið
 

Í upphafi 4. leikhluta tókst Þórsurum að minnka muninn í 5 stig. Eftir mikið klafs og harða vörn þar sem engin villa var dæmd komust Þórsarar í hraðaupphlaup. Tobin var einn á auðum sjó en Lewis hljóp hann uppi, stökk upp með honum og fékk á sig villu af því er virtist fyrir litlar sakir. Tobin setti vítinn og húsið á suðupunkti. Þarna hefðu Grindvíkingar getað misst tökin á leiknum en í staðinn svaraði Lalli strax með erfiðri körfu hinumegin. Svo mikill hiti var í stuðningsmönnum að einum stuðningsmanni Þórsara var vísað úr húsi í kjölfarið fyrir að sparka niður skilti.

Kjarninn
 

Það var sama hvað Þórsarar reyndu að keyra á Grindvíkinga, alltaf áttu heimamenn svar. Tobin átti erfitt uppdráttar í leiknum, varnarmenn Grindvíkur límdu sig á hann og voru duglegir að “hedge-a” hann í skiptum. Maciej var hvað líflegastur gestanna, sótti mikið á körfuna og setti 18 stig.
 

Grindvíkingar fengu framlag úr öllum áttum. Dagur Kár átti sennilega sinn slakasta leik sóknarlega í úrslitakeppninni en það kom ekki að sök þar sem aðrir stigu upp. Sannkallaður liðs og baráttusigur í kvöld hjá þeim.

Hetjan
 

Lewis Clinch Jr var án vafa maður leiksins í kvöld, ekki síst í lokafjórðungnum þar sem hann skoraði 13 stig af þeim 30 sem hann setti í leiknum. Hann átti líka góðan leik í vörninni og lét Tobin Carberry hafa mikið fyrir hlutunum í kvöld. Tobin er prímusmótor Þórs og ef hann hikstar þá hikstar allt liðið. Tobin tók þriðjung skota Þórs í kvöld, 24 talsins, en setti aðeins 9. Clinch var aðeins 1 frákasti frá þrefaldri tvennu og steig upp meðan að Dagur Kár hafði frekar hægt um sig í kvöld.
 

Tölfræðin lýgur ekki
 

Orkan hjá Grindvíkingum var ótrúleg í kvöld og þeir rústuðu frákastabaráttunni, 53-35. Þeir náðu ótrúlega mörgum lausum boltum og náðu að skapa annað og jafnvel þriðja tækifæri sóknarmegin með baráttu sinni.
 

Grindvíkingar nældu sér líka í ein 25 stig af bekknum en Þórsarar aðeins 5. Ingvi Þór Guðmundsson smellti þremur þristum í fjórum tilraunum, en Grindvíkingar opnuðu bæði 2. og 4. leikhluta með þristum frá honum. Þá setti Þorsteinn Finnbogason 11 stig og tók 6 fráköst.
 

Alþýðuhetjan
 

Áðurnefndur Þorsteinn gaf Grindvíkingum ómetanlegt framlag af bekknum, leysti orkuboltann Ómar Sævarsson af og setti tvo rándýra þrista djúpt utan af velli. Hann lauk leik með 5 villur en Þorsteinn virðist ekki eiga mikið inni hjá dómurunum þessa dagana.
 

Að leik loknum
 

Grindvíkingar eru loksins komnir í 4-liða úrslit Íslandsmótsins eftir magra uppskeru undanfarin ár. Þeir mæta þar Stjörnunni en Þórsarar eru komnir í sumarfrí og geta notið lífsins í Ölfusi, sem virðist vera heitasti staður landsins þessa dagana ef eitthvað er að marka allar auglýsingarnar sem tröllríða öllum miðlum um þessar mundir.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, Siggeir F. Ævarsson
Myndir og viðtöl, SBS

 
Fréttir
- Auglýsing -