spot_img
HomeFréttirLeimu kláraði leikinn á línunni(Umfjöllun)

Leimu kláraði leikinn á línunni(Umfjöllun)

02:12

{mosimage}
(Fögnuður Hamarsmanna var ósvikin í endann)

Í kvöld mættust Tindastóll og Hamar. Í lið Tindastóls vantaði Helga Rafn sem er meiddur, en hann sagði sjálfur að það væri bara aumingjaskapur í sér. Hjá Hamri lék nýi kaninn Nicholas King sinn fyrsta leik, en Hamar missti bæði George Byrd og Friðrik Hreinsson frá sér í síðustu viku. Leikurinn mjög mikilvægur fyrir bæði lið. Bæði í botnbaráttunni og bæði unnu síðasta leik sinn og því mátti búast við hörkuleik í kvöld.


Stólarnir byrjuðu gríðarlega ákveðnir í kvöld og skoruðu fyrstu átta stig leiksins. Hamarsmenn mættu þá til leiks og jöfnuðu í stöðunni 11-11. Þá kom aftur sprettur heimamanna sem skoruðu næstu 10 stig. Hamar lagaði aðeins stöðuna fyrir lok fyrsta leikhluta, en staðan að honum loknum 27-20.  Leikurinn nokkuð hraður eins og tölurnar bera með sér og greinilegt að Hamar er ekki sama liðið og áður þegar þeir vildu oft hægja á leiknum. Perre skoraði níu stig í leikhlutanum fyrir Stólana og nýji kaninn hjá Hamri var einnig kominn með 9 stig. 

{mosimage}

Í öðrum leikhluta dró fljótlega saman með liðunum og var að mestu fyrir tilstilli þess að Hamarsmenn fóru að hitta vel fyrir utan, en þeir skoruðu alls 6 þriggja stiga körfur í leikhlutanum. Hamar komst yfir 32-33, en Stólarnir liðu það ekki og komu sér strax yfir aftur. Munurin varð þó aldrei mikill eða 2-4 stig, en Tindastóll leiddi í leikhléi með einu stigi 53-52.  Tveir Tindastólsmenn voru komnir í villu vandræði í hálfleik, en Halldór var kominn með 4 og Ísak 3 og var það fyrir frekar lítil brot að margra mati, allavega af Ísaks hálfu. Hjá Hamri var Moriak einnig með þrjár villur. Donald átti svo tilþrif hálfleiksins þegar hann átti vörslu leiksins, boltinn örugglega kominn vel yfir fjórða meterinn þar. Leikurinn í fyrri hálfleik skemmtilegur og hraður og sóknarleikurinn í fyrirrúmi og lofaði góðu fyrir seinni hálfleikinn.

{mosimage}

Heldur hægðist á leiknum í síðari hálfleik, en Hamar skoraði fyrstu körfu hálfleiksins og komust þar með yfir, en síðan sigu Stólarnir smátt og smátt framúr. Enduðu leikhlutann með þremur þriggjastiga körfum sem skapaði þeim þokkalegt forskot og útlitið gott fyrir heimamenn með 9 stigum meira en gestirnir, 71-62.  Svavar og Perre voru að gera góða hluti fyrir heimamenn, en hjá Hamri var meðalmennskan allsráðandi og rötuðu þriggjastiga skotin ekki niður hjá þeim í leikhlutanum.

Hamarsmenn bitu í skjaldarrendur í upphafi fjórða fjórðungs og lokuðu vörninni og söxuðu á muninn sem var orðinn eitt stig eftir rúmar fjórar mínútur, 71-70 og Stólarnir ekki búnir að skora í leikhlutanum. Serge tróð þá boltanum fyrir Tindastól eftir laglega sókn og Samir setur þrist í næstu sókn og Perre hitti svo úr tveimur vítum og útlitið aftur orðið gott fyrir Tindastól. Staðan 79-71. Þá tók nýi leikmaður Hamars Nicholas King sig til og setur niður þrist, en rétt áður hafði Ísak fengið sína 5 villu. Samir hélt Stólunum á floti með vítum, en Hamarsmenn efldust og drógu á Stólana. Þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir urðu Stólarnir fyrir miklu áfalli, Serge fékk mikið olnbogaskot frá Roni Leimu þegar Leimu sótti að körfunni. Serge lá eftir óvígur og eftir fáeinar mínútur var hann borinn af velli á börum, en hann hafði hálfrotast við höggið. Við þetta áfall misstu Stólarnir allan damp og í stöðunni 83-77 skorar Bojan þrist fyrir Hamar. Samir setur niður auðvelt sniðskot fyrir Tindastól, en King svarar fyrir Hamar með þriggja stiga skoti og munurinn aðeins orðinn tvö stig 85-83. Hann brýtur svo á Donald sem fer á línuna sem brennir af báðum skotunum. King fær svo tvö víti hinum megin og getur jafnað leikinn, en hittir aðeins úr síðara og Tindastólsmenn anda aðeins léttara, enn yfir. Þeir fara í sókn, en ná ekki að skora og King kemur Hamri yfir í fyrsta sinn síðan á

upphafsmínútu síðari hálfleiks.

{mosimage}

Stólarnir ráða ráðum sínum og fara síðan í sókn, en Samir nær ekki að skora úr upplögðu færi og Leimu kemst í hraðaupphlaup fyrir Hamar og virðist vera að tryggja sigurinn fyrir þá en Halldór var ekki á sama máli og nær að slá boltann úr höndum hans, en aðeins í innkast og um 7 sekúndur eftir. Hamar tekur innkastið og Stólarnir brjóta strax á þeim. Leimu fer á línuna og setur bæði skotin niður og munurinn orðinn þrjú stig Hamri í vil. Stólarnir taka leikhlé og fá svo boltann inn við miðlínu. Þeir leita að þriggja stiga skotinu en ná því illa og þegar tíminn rennur út nær Perre þvinguðu skoti sem var hvergi nærri körfuhringnum og Hamarsmenn fögnuðu gríðarlega, enda sigurinn þeirra og tvö mikilvæg stig í hús í fallbaráttunni. Loka staðan 85-88. Stólarnir voru að spila vel í kvöld fram í fjórða leikhluta, en þá hrukku þeir úr gír og meiðsli Serge og fimm villur Ísaks gerðu má að segja útslagið fyrir þá og þeir náðu ekki að hanga á forskotinu nógu lengi. Nicholas King var kóngurinn í stigaskorinu í kvöld, en hann skoraði 33 stig fyrir Hamar, en stigahæstur Tindastóls var Svavar Birgisson með 19 stig.

{mosimage}

Eftir leikina í kvöld, en Skallagrímur vann Stjörnuna og KR vann Fjölnir, hefur botnslagurinn harðnað. Hamar er búinn að koma sér í nálægð við hin liðin með tveimur sigrum í röð og eru með sex stig eins og Fjölnir. Tindastóll, Stjarnan og Þór eru með 8 stig, en Þórsarar eiga inni einn leik.

Texti: Jóhann Sigmarsson

Myndir: Sveinn Brynjar Pálmason

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -