spot_img
HomeSubway deildinSubway deild karlaLeikmenn Dominos deilda karla og kvenna senda frá sér yfirlýsingu varðandi æfingar...

Leikmenn Dominos deilda karla og kvenna senda frá sér yfirlýsingu varðandi æfingar atvinnu- og afreksíþróttafólks

Rétt í þessu sendu leikmenn Dominos deildar karla og kvenna frá sér yfirlýsingu þar sem yfirvöld eru hvött til þess að heimila æfingar atvinnu og afreksfólks í íþróttinni. Yfirlýsinguna er í heild hægt að lesa hér fyrir neðan, en í henni er vel farið yfir hvaða hagsmunir eru í húfi og með hvaða hætti er hægt að verða við kröfu leikmanna.

Yfirlýsing frá leikmönnum Dominos deilda karla og kvenna í körfuknattleik varðandi æfingar atvinnu- og afreksíþróttafólks:

Leikmenn Dominos deildar karla og kvenna í körfuknattleik vilja hvetja ríkisstjórn Íslands og sóttvarnaryfirvöld til þess að heimila ábyrgar æfingar atvinnu- og afreksíþróttafólks að nýju, á meðan heimsfaraldri stendur.

Æfingar eru mikilvægasti þáttur hvers kyns iðkunar. Æfingar byggja upp og viðhalda færni, þoli og þreki – og í tilfelli íþróttafólks fyrirbyggja þær meiðsl. Íþróttafólk hefur nú búið við skerta aðstöðu til æfinga frá 20. október á höfuðborgarsvæðinu, en síðan 1. nóvember annars staðar á landinu.

Frekara æfingabann veldur okkur miklum áhyggjum. Íþróttafólk hefur hvorki aðstöðu til að auka né viðhalda því líkamlega ástandi sem þarf til þess að geta staðið undir því álagi sem fylgir starfi okkar. Verði æfingar ekki leyfðar með góðum fyrirvara, áður en leikir verða leyfðir, er hætt við að íþróttafólk hafi ekki viðunandi tíma til áðurnefndar uppbyggingar og verði því hættara við alvarlegum meiðslum og öðrum langvarandi afleiðingum. Slíkt mun hafa veruleg áhrif á keppnisíþróttir landsins, jafnt sem landslið. Þá er hætt við að binda þurfi enda á keppnir í körfu- og handknattleik, tveimur af stærstu íþróttadeildum landsins, annað leiktímabilið í röð ef æfingar geta ekki fljótlega hafist á ný.

Ráðleggingar um íþróttaiðkun utandyra, gönguferðir, skokk eða heimaæfingar eru góðar og gildar fyrir almenning til að viðhalda heilbrigðum almennum lífsstíl – en þær eru ekki líklegar til afreka á heimsvísu og því ekki viðeigandi fyrir atvinnu- og afreksíþróttafólk. Það álag og sú tækni, sem hér hefur áður verið minnst á, þarfnast sérútbúinnar aðstöðu, einkum leikvanga í viðunandi stærð.

Undanfarin ár hafa íþróttir ítrekað sannað sig sem mikilvægur þáttur í menningu þjóðarinnar. Íslenska þjóðin býr að aragrúa af frábæru íþróttafólki sem hefur ítrekað náð langt í sínum greinum, bæði í einstaklings- og liðsíþróttum – í félagskeppnum innanlands jafnt og á stórmótum erlendis. Heilu bæjarfélögin koma saman til þess að styðja við íþróttafólk sitt sem og öll þjóðin stendur að baki keppnisfólks okkar á alþjóðavettvangi. Íslenskt íþróttafólk, þrátt fyrir smæð lands og þjóðar, gengur ætíð til leiks með þann möguleika fyrir augum að sigra – sama hver mótherjinn er. Sá möguleiki – þessi draumur – fjarlægist með hverjum degi sem við fáum ekki að æfa.

Það getur ekki talist boðlegt afreksíþróttafólki okkar, sem kemur fram fyrir land og þjóð – sem land og þjóð hreykja sér af – að setja það í þessar aðstæður á meðan það fylgist með keppinautum sínum erlendis æfa og keppa og þar með stinga sig af inni á keppnisvellinum.

Árangur Íslendinga í erlendum íþróttakeppnum er einstakur. Að þjóð sem telur rétt um 360.000 státi af fjölmörgu íþróttafólki sem leikur fyrir erlend félagslið, og mörgum einstaklingum og landsliðum sem keppa í Evrópumótum verður ekki lýst öðruvísi en algjörlega einstöku. Það að neita þessu afreksíþróttafólki að æfa sendir þennan árangur nokkur ár aftur í tímann. Þau sem nú eru á sínum seinustu bestu árum gætu þurft að hætta of snemma. Þau sem eru á sínu blómaskeiði dragast aftur úr. Svo ekki sé minnst á allt það unga og efnilega fólk sem kæmi til með að taka við keflinu missir bæði viðeigandi aðhald sem og handleiðslu þeirra sem eldri eru og því er hætta á brotfalli.

Við förum fram á að geta æft aftur til að viðhalda styrk okkar, tækni, þoli og hugarfari – þannig að þegar keppni verður leyfð á ný, þá séum við tilbúin. Afreksíþróttafólk er alvant því að færa fórnir til þess að geta iðkað sína íþrótt, gagnvart persónulegu lífi, námi, öðru starfi og fjölskyldu. Auk þess komum við saman sem lið þar sem samvinna og liðsheild skipta höfuðmáli. Við erum því að sjálfsögðu reiðubúin að færa fórnir og vinna saman í því að finna leið til þess að æfa. Því leggjum við m.a. til eftirfarandi punkta hvað þetta varðar:

  • Við förum ekki fram á keppni í íþróttum okkar fyrr en sóttvarnaryfirvöld telja það fært, aðeins æfingar.
  • Fjöldi á æfingu mun í hvívetna fylgja fjöldatakmörkunum sóttvarnaryfirvalda

Ímynd íþróttafólks er að það sé reglusamt, skynsamt, heilbrigt og fyrirmynd annarra. Styðjum við þessa ímynd, setjum upp skynsamlegar leiðir til þess að við getum æft og vinnum saman til að fylgja þeim. Við ítrekum að við erum ekki að fara fram á að hefja keppni að svo stöddu enda er uppsveifla í sýkingum á landinu líkt og fram hefur komið í fréttum að undanförnu.

Við hvetjum til skynsamlegrar lausnar á því hvernig æfingar geti hafist aftur hjá atvinnu- og afreksíþróttafólki og það sem fyrst.

Fyrirfram þakkir
Leikmenn í Dominos deild karla og kvenna

Fréttir
- Auglýsing -