spot_img
HomeFréttirLeikir og möguleikar liðanna í lokaumferðunum

Leikir og möguleikar liðanna í lokaumferðunum

 

Í dag eru aðeins 13 dagar í að deildarkeppni Dominos deildar karla ljúki. Þó 19 umferðir séu afstaðnar á enn mikið vatn eftir að renna til sjávar. Á þessum tæpu tveimur vikum mun það ráðast í hvaða sætum liðin munu enda og þar með hvaða lið falla, séu á leiðinni í frí, verði deildarmeistarar og verði með heimavöll í úrslitakeppninni.

 

Hér að neðan er farið yfir leiki og möguleika hvers liðs fyrir sig í þessum lokaumferðum.

 

 

 

 

KR

Staða í deildinni: 1. sæti

Síðustu þrír leikirnir:

Heima gegn Keflavík 02.03.

Úti gegn Snæfell 05.03.

Heima gegn Stjörnunni 09.03.

 

Bjartsýni á stigasöfnun: 6 stig

Í versta falli: 4 stig

Líkleg lokastaða: 1.- 3. sæti

Í fyrri umferðinni gjörsamlega slátruðu KR bæði Keflavík og Snæfell. Töpuðu þó fyrir Stjörnunni. Stjarnan þó ekki alveg fullmönnuð þessa dagana og því kjörið tækifæri fyrir þá að kvitta fyrir tapið. Keflavíkurleikurinn gæti, líkt og Stjörnuleikurinn verður vafalaust, einnig orðið erfiður fyrir þá. Að því sögðu, gerum við þó ekki ráð fyrir að Íslands, deildar og bikarmeistararnir tapi neinum af þessum leikjum.

 

 

Tindastóll

Staða í deildinni: 2. sæti

Síðustu þrír leikirnir:

Úti gegn Skallagrím 02.03.

Heima gegn Grindavík 05.03.

Úti gegn Haukum 09.03.

 

Bjartsýni á stigasöfnun: 6 stig

Í versta falli: 4 stig

Líkleg lokastaða: 1. – 3. sæti

Tindastóll er heitasta lið deildarinnar þessa stundina, búnir að vinna síðustu 4 leiki sína. Liðin í 2. og 3. sæti þessarar deildar eiga bæði Grindavík og Hauka í þessum síðustu þrem umferðum. Tindastóll vann þessi 3 lið í fyrri umferðinni, ofan á það virðast þeir sterkari í dag en þá, öfugt við hin liðin, svo það er líklegt að þeir klári dæmið með sigrum í hverjum einasta.

 

 

Stjarnan

Staða í deildinni: 3. sæti

Síðustu þrír leikirnir:

Úti gegn Grindavík 02.03.

Heima gegn Haukum 05.03.

Úti gegn KR 09.03.

 

Bjartsýni á stigasöfnun: 4 stig

Í versta falli: 2 stig

Líkleg lokastaða: 2. – 3. sæti

Stjarnan vann einnig þessi 3 lið í fyrri umferðinni. Hafa þó verið nokkuð laskaðir upp á síðkastið. Þó aðallega vegna fjarveru leikstjórnandans Justin Shouse. Við gerum ráð fyrir að þeir vinni Hauka. Bæði Grindavíkur og KR leikurinn verða þeim erfiðir og við gerum ekki ráð fyrir að þeir vinni þá báða. Ættu þó að taka sigur í öðrum hvorum.

 

 

Grindavík

Staða í deildinni: 4. sæti

Síðustu þrír leikirnir:

Heima gegn Stjörnunni 02.03.

Úti gegn Tindastól 05.03.

Heima gegn Skallagrím 09. 03.

 

Bjartsýni á stigasöfnun: 4 stig

Í versta falli: 0 stig

Líkleg lokastaða: 4. – 6. sæti

Erfiðir lokaleikir fyrir Suðurstrandarfélagið. Töpuðu fyrir bæði Stjörnunni og Tindastól í fyrri umferðinni, gætu vel gert það aftur. Fá svo rúsínuna í pulsuendanum í lokaumferðinni. Brjálaða Borgnesinga í baráttu um sæti sitt í deildinni. Getum gert ráð fyrir að Grindavík sæki 2 stig í þessum lokaumferðum, allt annað er bónus fyrir þá.

 

 

Þór

Staða í deildinni: 5. sæti

Síðustu þrír leikirnir:

Heima gegn ÍR 02.03.

Úti gegn Skallagrím 05.03.

Heima gegn Njarðvík 09.03.

 

Bjartsýni á stigasöfnun: 6 stig

Í versta falli: 0 stig

Líkleg lokastaða: 4.-6. sæti

Þór er furðulegasta lið deildarinnar þetta tímabil. Hvort þeir unnu þessi lið eða ekki í fyrri umferðinni skiptir litlu máli. Þór getur jafnt tapað fyrir hvaða liði sem er eins og þeir geta unnið hvaða lið sem er. Þrír erfiðir leikir í vændum fyrir þá. ÍR og Njarðvík eru í hatrammi baráttu um síðasta sætið í úrslitakeppninni og svo þurfa þeir að spila við Skallagrím, sem er að berjast um sæti sitt í deildinni, í Borgarnesi.

 

 

 

Keflavík

Staða í deildinni: 6. sæti

Síðustu þrír leikirnir:

Úti gegn KR 02.03.

Heima gegn Þór frá Akureyri 06.03.

Úti gegn ÍR 09.03.

 

Bjartsýni á stigasöfnun: 6 stig

Í versta falli: 2 stig

Líkleg lokastaða: 4. – 7. sæti

Keflavík er næst heitasta lið deildarinnar þessa dagana, búnir að vinna síðustu 3 leiki sína. Liðinu hefur gengið vel undir stjórn nýs þjálfara, Friðriks Inga Rúnarssonar. Erfitt að segja með þessa síðustu leiki þeirra í deildarkeppninni. Unnu bæði ÍR og Þór Akureyri í fyrri umferðinni en töpuðu fyrir KR. Gerum því ráð fyrir hörkuleik gegn KR, þeir vinna Þór Akureyri og svo ættu þeir að vinna ÍR í Hellinum í síðasta leik mótsins.

 

 

ÍR

Staða í deildinni: 7. sæti

Síðustu þrír leikirnir:

Úti gegn Þór 02.03.

Úti gegn Njarðvík 06.03.

Heima gegn Keflavík 09.03.

 

Bjartsýni á stigasöfnun: 4 stig

Í versta falli: 0 stig

Líkleg lokastaða: 6. – 9. sæti

ÍR hefur unnið síðustu 6 leiki sína á heimavelli, en tapað síðustu 3 leikja sinna á útivelli. Í fyrri umferðinni unnu þeir bæði Þór og Njarðvík, en töpuðu fyrir Keflavík. Njarðvíkurleikurinn lang mikilvægastur þessara leikja. Bæði lið í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Heppilega vann ÍR fyrri leik liðanna með 19 stigum, svo að innbyrðis munu þeir mjög líklega hafa vinninginn. Breytir því ekki að 2 stig til eða frá fyrir bæði lið verður að lokum það sem mun skilja annað hvort þeirra frá úrslitakeppninni. ÍR nær í 2-4 stig úr þessum lokaleikjum, engin leið er að segja hvar.

 

 

Þór frá Akureyri

Staða í deildinni: 8. sæti

Síðustu þrír leikirnir:

Heima gegn Njarðvík 03.03.

Úti gegn Keflavík 06.03.

Heima gegn Snæfell 09.03.

 

Bjartsýni á stigasöfnun: 6 stig

Í versta falli: 2 stig

Líkleg lokastaða: 5. – 9. sæti

Í fyrri umferðinni vann Þór bæði Njarðvík og Snæfell, en tapaði fyrir Keflavík. Ekki gengið eins vel hjá Akureyrarfélaginu að safna stigum upp á síðkastið eins og fyrr í mótinu. Við gerum þó ráð fyrir að þeir vinni Snæfell og ætli þeir sér ekki að fara í snemmbúið sumarfrí, þá þurfa þeir að vinna annaðhvort stórveldið, Njarðvík eða Keflavík. Líkt og með ÍR, væri betra fyrir þá að sigra Njarðvík, því líklegra er að það sé það lið sem þeir séu í baráttunni við um úrslitakeppnissæti. Geta þetta þó vel, hafa sýnt það í vetur að sé sá gállinn á þeim, geti þeir unnið hvaða lið sem er.

 

 

Njarðvík

Staða í deildinni: 9. sæti

Síðustu þrír leikirnir:

Úti gegn Þór frá Akureyri 03.03.

Heima gegn ÍR 06.03.

Úti gegn Þór 09.03.

 

Bjartsýni á stigasöfnun: 6 stig

Í versta falli: 0 stig

Líkleg lokastaða: 5. – 9. sæti

Njarðvík tapaði fyrir öllum þessum liðum í fyrri umferðinni. Eru í mikilli baráttu við Þór frá Akureyri og ÍR um sæti í úrslitakeppninni. Liðin eru öll jöfn að stigum í 7.-9. sæti deildarinnar, en til þess að Njarðvík nái í innbyrðissigra á þeim þurfa þeir 12 stiga sigur á Þór og 20 stiga sigur á ÍR. Erfitt að sjá hvernig þessir leikir eiga eftir að fara. Gerum þó ráð fyrir að Njarðvík vinni 1, jafnvel 2 þeirra.

 

 

Skallagrímur

Staða í deildinni: 10. sæti

Síðustu þrír leikirnir:

Heima gegn Tindastól 02.03.

Heima gegn Þór 05.03.

Úti gegn Grindavík 09.03.

 

Bjartsýni á stigasöfnun: 2 stig

Í versta falli: 0 stig

Líkleg lokastaða: 10. – 11. sæti

Mjög erfiðir leikir sem eftir eru fyrir Skallagrím. Í fyrri umferðinni töpuðu þeir fyrir bæði Grindavík og Tindastól, en unnu Þór. Verða mun líklega að vinna einn þessara leikja ef þeir ætla að halda sér uppi í deildinni. Haukar eru í sætinu fyrir neðan þá, með leik gegn Snæfell í næstu umferð og eiga innbyrðis viðureignina á þá. Að öllum líkindum verður það því Skallagrímur sem kominn verður í fallsætið eftir næstu umferð. Mikill hugur þó í Borgnesingum. Eins og þeir sýndu í síðustu umferð gegn Stjörnunni. Heppilega fyrir þá er að þessi lið eru öll með bókaðan miða í úrslitakeppnina, svo að eljan ætti að vera öll þeirra megin. Gerum þó ekki ráð fyrir að þeir vinni fleiri en einn þessara leikja. Villt ágiskun, þá taka þeir Grindavík í Mustad Höllinni í síðustu umferðinni.

 

 

 

Haukar

Staða í deildinni: 11. sæti

Síðustu þrír leikirnir:

Heima gegn Snæfell 03.03.

Úti gegn Stjörnunni 05.03.

Heima gegn Tindastól 09.03.

 

Bjartsýni á stigasöfnun: 4 stig

Í versta falli: 0 stig

Líkleg lokastaða: 10. – 11. sæti

Það hefur allt verið sagt um gengi Hauka í vetur sem þarf að segja. Staðan í dag er sú að þeir eru með hæfileikaríkan hóp, tvo erlenda leikmenn og reynslumikinn þjálfara. Hvert ætti það að skila þeim? Það ætti að skila þeim sæti í deildinni á næsta tímabili. Erum við tilbúin að segja að svo verði? Alls, alls ekki. Virkilega erfiðir 3 leikir sem að þeir eiga eftir (já, leikurinn gegn Snæfell líka) Ná þó líklega í 2 stig úr þeim. Gætu þó þurft að gera meira en það til þess að halda sæti sínu í deildinni, ef Skallagrímur vinnur einum leik meira. Líkt og með Skallagrím munu þeir njóta þess að fá að spila við lið sem hafa að mun minnu að keppa en þeir. Munu þeir nýta sér það? Við höldum ekki. Hálf ljóðrænt að mögulega verði það liðið sem Haukar slógu út í undanúrslitum (Já, Haukar fóru í úrslit í fyrra) úrslitakeppninnar á síðasta ári sem sendi þá niður um deild í síðustu umferðinni.

 

 

 

Snæfell

Staða í deildinni: 12. sæti

Síðustu þrír leikirnir:

Úti gegn Haukum 03.03.

Heima gegn KR 05.03.

Úti gegn Þór frá Akureyri 09.03.

 

Bjartsýni á stigasöfnun: 2 stig

Í versta falli: 0 stig

Líkleg lokastaða: 12. sæti

Snæfell tapaði öllum leikjum sínum gegn þessum liðum í fyrri umferðinni. Líkt og gegn öllum öðrum liðum, í öllum umferðum í vetur. Eftir því sem það hefur liðið á tímabilið hafa þeir þó sótt í sig veðrið. Hafa oft gefið liðum leiki. Líkt og í síðustu umferð þegar að þeir leiða lengi vel gegn Grindavík, eða í skiptin sem að þeir fóru í framlengingar gegn Skallagrím. Haukar gætu vel verið liðið sem þeir vinna í vetur. Þór Akureyri og KR vinna þeir ekki.

 

 

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -