spot_img
HomeFréttirLeikir kvöldsins: Tólftu umferð lýkur í kvöld

Leikir kvöldsins: Tólftu umferð lýkur í kvöld

11:24
{mosimage}

(Eiríkur Öndunarson og félagar í ÍR voru síðasta lið til að leggja KR að velli, verða þeir líka fyrstir til þess?)

Tólftu umferð í Iceland Express deild karla lýkur í kvöld með þremur leikjum sem allir hefjast kl. 19:15. Nokkuð var um óvænt úrslit í gær þegar Skallagrímur vann sinn fyrsta deildarleik á tímabilinu og Grindavík fékk magalendingu í Ásgarði þegar Stjarnan hafði betur í rimmu liðanna. Leikur kvöldsins er vafalítið grannarimma ÍR og KR í Seljaskóla en ÍR var síðasta liðið á landinu til þess að leggja KR að velli en það gerðist í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð.

KR hefur ekki tapað leik þetta keppnistímabilið og trónir á toppi deildarinnar með 22 stig. ÍR átti hinsvegar erfitt uppdráttar þar sem Hreggviður Magnússon glímdi við meiðsli framan af og lék ekki með. ÍR hefur þó hert róðurinn með hverjum leik en máttu sætta sig við ósigur í Röstinni í Grindavík í síðustu umferð. KR leikur í kvöld án landsliðsmannsins Helga Magnússonar sem glímir við meiðsli en hann er væntanlegur aftur inn í hópinn á allra næstu dögum.

Njarðvíkingar taka á móti FSu í Ljónagryfjunni og vilja væntanlega rétta úr kútunum eftir 30 stiga ósigur í síðasta leik ársins 2008 þegar Snæfellingar komu í gryfjuna. Slíkt hið sama stefnir FSu væntanlega að því að gera þar sem þeir lágu í Ásgarði í síðasta leik fyrir jól.

Snæfellingar mæta svo á Krókinn í kvöld og leika gegn Tindastólsmönnum sem hafa endurheimt talsvert af sínum félagsmönnum undanfarið. Stólarnir rétt eins og Njarðvík og FSu luku árinu 2008 á lágu nótunum með ósigri gegn Breiðablik fyrir Norðan en Snæfellingar höfðu stórsigur gegn Njarðvík í Ljónagryfjunni.

Þá hefst keppni að nýju í 1. deild karla með þremur leikjum. Ármann tekur á móti Fjölni kl. 19:15 í Laugardalshöll, Þór Þorlákshöfn fær Val í heimsókn kl. 19:15 og KFÍ tekur á móti UMFH á Ísafirði kl. 19:15.

Tveir bikarleikir eru í yngri flokkum í kvöld. Í 11. flokki karla mætast Grindavík og ÍBV í Röstinni í Grindavík kl. 20:50 og í bikarkeppni drengjaflokks mætast Skallagrímur og Stjarnan kl. 19:15 í Borgarnesi.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -