Í kvöld fer fram heil umferð í Iceland Express deild kvenna og er þetta síðasta umferðin fyrir jól og jafnframt sú ellefta í röðinni. Allir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15.
Íslandsmeistarar Hauka fá sjóðheitar Hamarskonur í heimsókn á Ásvelli og verður Hamar að ná fram sigri ef þær ætla ekki að missa KR of langt fram úr sér í deildinni. Að sama skapi er sigurinn Haukum ekki síður mikilvægur þar sem aðeins 2 stig skilja að Hauka og Keflavík í baráttunni um sæti í A-riðli þegar deildinni verður skipt upp fljótlega eftir áramót.
Njarðvíkingar fá kost á því að hefna ófaranna frá því í Vodafonehöllinni þegar Valskonur mæta í Ljónagryfjuna en Valur hafði betur eftir framlengingu þegar liðin mættust að Hlíðarenda.
Kirsten Green verður á bekknum hjá Snæfell í kvöld þegar Hólmarar heimsækja Grindavík í Röstina. Green mun ekki leika meira með Snæfell á þessari leiktíð eins og þegar hefur komið fram hér á Karfan.is. Eins og sakir standa eru Grindvíkingar í 3. sæti deildarinnar með 12 stig en hafa líkt og Snæfell fengið sinn skerf af meiðslum þar sem bakvörðurinn Ingibjörg Jakobsdóttir er með slitin krossbönd og verður líklega ekki meira með í vetur.
Topplið KR tekur svo á móti Keflavík í DHL-Höllinni og má gera ráð fyrir hörkuslag í Vesturbænum. KR vill væntanlega auka forskot sitt í deildinni enn meira en Keflvíkingar berjast hart fyrir tilverurétti sínum í A-riðli og mega ekki við því að hleypa öðrum liðum nærri sér en Haukar fylgja þeim fast eftir.
Hægt er að tippa á alla leiki kvöldsins á Lengjunni – www.lengjan.is
Leikir kvöldsins:
Haukar – Hamar
Njarðvík – Valur
Grindavík – Snæfell
KR – Keflavík
Ljósmynd/ Frá viðureign Vals og Grindavíkur fyrr á þessari leiktíð. Valskonur sitja í botnsæti deildarinnar.



