spot_img
HomeFréttirLeikir kvöldsins: Fjórir leikir í 1. deild karla

Leikir kvöldsins: Fjórir leikir í 1. deild karla

Í kvöld eru fjórir leikir á dagskránni í 1. deild karla. Þá er einnig leikið í yngri flokkum og öðrum neðri deildum. Slagur kvöldsins er vafalítið toppviðureign Skallagríms og KFÍ sem fram fer í Borgarnesi kl. 18:30. 
Leikir kvöldsins í 1. deild karla:
 
18:30: Skallagrímur-KFÍ
19:15: Hrunamenn-Þór Þorlákshöfn
19:15: Haukar-ÍA
19:15: Þór Akureyri-Ármann
 
Skallagrímur hefur 18 stig í 4. sæti 1. deildar á meðan KFÍ menn tróna á toppnum með 24 stig eftir öruggan sigur á Val í síðustu umferð í toppslag deildarinnar. Hrunamenn eru enn á botni deildarinnar án stiga og freista þess að vinna sinn fyrsta leik á tímabilinu þegar Þór Þorlákshöfn mætir í heimsókn. 8 stig skilja að Þór Þorlákshöfn og svo Hött og Þór Akureyri en Þór Þorlákshöfn hefur 18 stig í 5. sæti deildarinnar nú þegar 8-12 stig eru eftir í pottinum (liðin hafa ekki öll leikið jafn marga leiki). Ef Þór Akureyri og Höttur ætla sér að eiga möguleika á úrslitakeppninni þarf ansi margt að ganga þeim í hag, t.d. að Þór Þorlákshöfn tapi helst að Flúðum í kvöld.
 
Haukar fengu magalendingu á Egilsstöðum í síðustu umferð en tefla fram Semaj Inge. Ekki amalegt hjá Hafnfirðingum að hafa krækt sér í besta varnarmann úrvalsdeildarinnar. Inge á vafalítið eftir að láta bakkarana í liði ÍA finna rækilega fyrir tevatninu.
 
Þór Akureyri fær svo Ármenninga í heimsókn í Síðuskóla í kvöld og þó útlitið sér svart hjá báðum liðum er ekki endanlega hægt að afskrifa Þór Akureyri úr úrslitakeppninni þó Ármenningar eigi ekki möguleika.
 
Tveir leikir eru svo í 1. deild kvenna. Nýliðar Stjörnunnar taka á móti Fjölni kl. 20:00 í Ásgarði og Grindavík b fær Dælurnar frá Laugarvatni í heimsókn í Röstina kl. 20:00.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -