spot_img
HomeFréttirLeikir kvöldsins: Deildarbikarinn á loft í DHL-Höllinni

Leikir kvöldsins: Deildarbikarinn á loft í DHL-Höllinni

 
Heil umferð fer fram í Iceland Express deild kvenna í kvöld þar sem deildarmeistarar KR fá afhentan deildarmeistaratitilinn. Leikur kvöldsins er síðasti leikur KR á heimavelli í venjulegri deildarkeppni og hann er af dýrari gerðinni þar sem Ágúst Sigurður Björgvinsson og Hamarskonur verða í heimsókn. Allir leikir kvöldsins í IEX deild kvenna hefjast kl. 19:15.
Hamarskonur eru í þeim fámenna hópi þessa leiktíðina sem unnið hefur sigur á KR og það í DHL-Höllinni. Reyndar hafa einu tapleikir KR þetta tímabilið komið í DHL-Höllinni þar sem Vesturbæingar hafa legið fyrir Hamri í bikarnum og Keflavík í deildinni. Hamar berst nú fyrir því að klóra sig ofar í A-riðli en KR verður ekki haggað af toppnum.
 
Í Röstinni í Grindavík mætast gular og Keflavík í athyglisverðum slag en bæði lið hafa 22 stig í 2.-3. sæti A-riðils þegar fjögur stig eru eftir í pottinum. Bæði lið hafa unnið 11 deildarleiki en tapað 7. Það lið sem verður í 2. sæti eftir næstu tvær umferðir mun sitja hjá í fyrstu umferð úrslitakeppninnar ásamt KR.
 
Bikarmeistaraþjálfararnir Henning Henningsson og Ingi Þór Steinþórsson mætast í kvöld. Um helgina varð Henning bikarmeistari með Haukakonur og Ingi Þór með karlalið Snæfells. Haukar taka á móti Hólmurum að Ásvöllum í kvöld en Haukar hafa þegar tryggt sér efsta sæti B-riðils og eru því öruggar inn í úrslitakeppnina. Snæfellingar þurfa hinsvegar á sigri að halda enda í 3. sæti B-riðils með 10 stig en Njarðvíkingar eru þar fyrir ofan með 12 stig. Takist Snæfell að vinna 2. sætið í deildinni verður það í fyrsta sinn sem kvennalið félagsins tekur þátt í úrslitakeppninni í efstu deild kvenna.
 
Í Ljónagryfjunni mætast svo Njarðvík og Valur en Njarðvíkurkonur unnu Val á dögunum eftir að þær sendu Shantrell Moss til síns heima. Næstu tveir leikir eftir það voru magalendingar hjá Grænum og nú freista þær þess að ná öðrum sigri gegn Val til að tryggja sér sætið í úrslitakeppninni. Valskonur eru hinsvegar fallnar í 1. deild með 4 stig í botnsæti B-riðils og aðeins fjögur stig eftir í pottinum. Næsta lið fyrir ofan er Snæfell með 10 stig og munurinn því orðinn of mikill.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -