Heil umferð fer fram í Iceland Express deild kvenna í kvöld þar sem KR getur tryggt sér deildarmeistaratitilinn með sigri á Grindavík í DHL-Höllinni. Allir leikirnir hefjast kl. 19:15 og verður viðureign KR og Grindavíkur nánast örugglega aðgengileg hjá köppunum á KR TV.
Átta stig eru í pottinum og nánast hið ómögulega þarf að gerast til þess að KR verði ekki deildarmeistari þar sem Vesturbæingar sitja á toppi deildarinnar með 30 stig en Grindavík hefur 22 stig í 2. sæti. KR þyrfti því að tapa næstu fjórum leikjum sínum og Grindavík að vinna næstu fjóra til þess að gular eigi möguleika á deildarmeistaratitlinum og þá eru ótaldar innbyrðisviðureignir liðanna.
Í Hveragerði verður svo mikill slagur þegar Hamar tekur á móti Keflavík en bæði liðin eiga í harðri baráttu við Grindavík um 2. sætið í deildinni og þar af leiðandi réttinn til þess að sitja hjá fyrstu umferð úrslitakeppninnar en það kemur í hlut tveggja efstu liða í A-riðli að lokinni deildarkeppni. Keflavík hefur 20 stig í 3. sæti deildarinnar og þar á eftir eins og skugginn koma Hamarskonur með 18 stig.
Hægt er að tippa á leik Hamars og Keflavíkur í kvöld á www.lengjan.is
Í B-riðli mætast Snæfell og Valur í Stykkishólmi. Valur situr á botni deildarinnar með 4 stig en Snæfellingar hafa 6 stig í 3. sæti riðilsins og eiga þessi tvö lið í hatrammri fallbaráttu. Njarðvíkingar mæta svo kanalausir á Ásvelli í kvöld og voru þær kátar með sigurinn gegn Val á dögunum enda höfðu þær andartökum áður rekið Shantrell Moss. Haukar leiða B-riðil með 16 stig og misstu naumlega af sæti í A-riðli en Njarðvíkingar eru ekki langt undan með 12 stig.
Tveir leikir eru á dagskrá í kvöld í bikarkeppni yngri flokka. Stjarnan tekur á móti KR í Ásgarði í 9. flokki karla kl. 16:45 en þessi lið mættust á fjölliðamóti um helgina þar sem KR hafði afgerandi sigur. Þá tekur Hamar/Þór Þorlákshöfn á móti Breiðablik kl. 21:15 í Hveragerði í bikarkeppninni drengjaflokks.
Tveir leikir eru á Íslandsmótinu í unglingaflokki karla. Laugdælir mæta Haukum á Laugarvatni kl. 19:45 og Keflavík tekur á móti Val kl. 20:00 í Toyota-höllinni. Í B-liða keppni karla í 2. deild mætast svo Haukar b og Breiðablik b kl. 21:20 að Ásvöllum.



