06:00
{mosimage}
(Sigurður Þorvaldsson og félagar hafa oft má lúta í parket á meðan Keflvíkingar stíga sigurdansa!)
Tveir leikir fara fram í Iceland Express deild karla í kvöld og hefjast þeir báðir kl. 19:15. Liðin sem börðust um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð, Keflavík og Snæfell, mætast í Toyotahöllinni í Keflavík og er von á miklum slag.
Keflavík er í 3. sæti deildarinnar með 20 stig en fast á hæla þeirra koma Snæfellingar með 18 stig sem með sigri geta jafnað Keflavík að stigum. Liðin mættust í Stykkishólmi þann 3. nóvember síðastliðinn þar sem Keflvíkingar fóru með nauman útisigur af hólmi 67-62. Síðan þá hafa þeir Lucious Wagner og Slobodan Subasic bæst í hópinn hjá Snæfellingum sem töpuðu naumlega gegn toppliði KR í síðustu umferð.
Botnlið Skallagríms fær Stjörnuna í heimsókn í Borgarnes en Garðbæingar hafa verið á mikilli siglingu síðan Teitur Örlygsson tók við liðinu. Stjarnan er í 8. sæti með 12 stig en Skallagrímur hefur aðeins unnið einn deildarleik í vetur og það gegn Breiðablik.
Tveir leikir eru á dagskrá í 1. deild karla og taka Valsmenn á móti heitu liði KFÍ sem varð fyrst allra liða í 1. deild til að vinna topplið Hamars. Leikurinn hefst kl. 20:00 í Vodafonehöllinni. Þá mætast Þór Þorlákshöfn og Ármann kl. 19:15 í Þorlákshöfn.
Sannkallaður grannaslagur verður í 1. deild kvenna þegar Njarðvík tekur á móti Keflavík b kl. 19:15 í Ljónagryfjunni en liðin eru jöfn á toppi deildarinnar með 7 sigra og 2 tapleiki.
Þá er einn leikur í bikarkeppni hjá 11. flokki karla þegar KR tekur á móti KFÍ í DHL-Höllinni kl. 21:30.



