08:53
{mosimage}
(Ragna Margrét og Haukar geta styrkt stöðu sína á toppi deildarinnar í kvöld)
Áttundu umferðinni í Iceland Express deild kvenna lýkur í kvöld með þremur leikjum sem allir hefjast kl. 19:15. Stórleikur kvöldsins er viðureign toppliðs Hauka og Íslandsmeistara Keflavíkur. Leikurinn fer fram að Ásvöllum og er von á miklum slag enda hafa þessi tvö lið eldað saman grátt silfur síðustu ár í boltanum.
Haukar lögðu topplið Hamars í síðustu umferð með eftirminnilegum hætti þegar Slavica Dimovska skoraði lygilega flautukörfu og tryggði Haukum sigurinn. Keflavík hefur unnið tvo síðustu leiki sína og þar með talið Hamar en Keflavík var fyrsta liðið til að leggja Hamar í vetur og gerðu það sannfærandi í Hveragerði. Það ætti því enginn að missa af þessum stórleik að Ásvöllum í kvöld.
Nýliðar Snæfells fá Hamar í heimsókn í Hólminn í kvöld en nýliðarnir unnu nokkuð óvæntan sigur á Grindavík í síðustu umferð. Samkvæmt síðustu fréttum þá hefur Detra Ashley leikið sinn síðasta leik fyrir Snæfell og verður fróðlegt að sjá hvernig Hólmurum muni vegna án hennar.
Síðasti leikur umferðarinnar er svo viðureign Vals og Fjölnis í Vodafonehöllinni. Með sigri eru Valskonur að brúa betur bilið við A-hluta deildarinnar en á miðri leiktíð verður deildinni skipt upp í A og B hluta. Valur hefur 6 stig í 5.-6. sæti deildarinnar en Fjölniskonur eru á botninum með Snæfell með aðeins 2 stig.
Hér má svo sjá alla leiki dagsins en það er m.a. mikið um að vera í bikarkeppni yngri flokkanna: http://kki.is/leikvarp.asp



