spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Stóra stundin runnin upp í kvennaboltanum

Leikir dagsins: Stóra stundin runnin upp í kvennaboltanum

Í kvöld hefst úrslitakeppnin í Iceland Express deild kvenna þegar bikarmeistarar Njarðvíkur og Snæfell mætast í sínum fyrsta leik í undanúrslitum. Einnig hefst úrslitaviðureign Skallagríms og ÍA í 1. deild karla í baráttu um laust sæti í úrvalsdeild karla á næstu leiktíð.
 
Í úrvalsdeild kvenna eru það Njarðvík-Snæfell annarsvegar og Keflavík-Haukar hinsvegar sem leika í undanúrslitum. Rimma Keflavíkur og Hauka hefst á morgun, laugardag.
 
Njarðvíkingar hafa tök á Snæfell þetta tímabilið, um það verður ekki deilt því grænar unnu allar fjórar deildarviðureignir liðanna og bikarúrslitaleikinn í Laugardalshöll og hafa því lagt Snæfell fimm sinnum að velli á tímabilinu. Tölfræðin er því ekki með Snæfell á bandi í rimmunni en Hólmarar fá a.m.k. þrjú tækifæri til þess að finna lykilinn að sigri gegn Njarðvík.
 
Viðureign Njarðvíkur og Snæfells hefst kl. 19:15 í Ljónagryfjunni í kvöld þar sem Njarðvík er með heimaleikjaréttinn í seríunni.
 
Skallagrímur-ÍA
Vesturlandsslagurinn í 1. deild og Borgnesingar með heimaleikjaréttinn. Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst upp í úrvalsdeild með KFÍ. Skallagrímur sló út Hött í undanúrslitum á meðan ÍA kom nokkuð á óvart og sendi Hamar í sumarfrí með 2-0 sigri. Liðin hefja leik í kvöld í Borgarnesi kl. 19:15.
 
 
Mynd/ Þorsteinn Eyþórsson
Fréttir
- Auglýsing -