13:50
{mosimage}
Þórsarar ætla að fylla Síðuskólann í kvöld
Lokaumferð Iceland Express deildar karla fer fram í kvöld, sex leikir á sama tíma og mikil spenna í lofti. Ef við förum fyrst yfir hvern leik kvöldsins og hvaða er í boði þá er það mismikið.
Í Njarðvík taka heimamenn á móti Grindavík og þar hafa bæði lið að miklu að keppa. Njarðvík þarf að vinna til að halda örugglega 4. sæti deildarinnar og þar með heimaleikjaréttinum gegn Snæfell í 8 liða úrslitunum. Grindavík er hinsvegar að keppa um annað sætið í deildinni sem þeir geta náð af KR. Leikurinn verður í beinni í nýju upplýsingakerfi KKÍ.
KR tekur á móti Skallagrími og þarf KR að vinna til að halda öðru sætinu öruggu. Staða Skallagríms getur aftur á móti ekkert breyst jafnvel þó þeir tapi og ÍR og/eða Þór nái þeim að stigum. Skallagrímur hefur betur innbyrðis gegn þeim báðum. Leikurinn verður í beinni í nýju upplýsingakerfi KKÍ auk þess sem KRtv verður á sínum stað.
Þórsarar sem ætla að fylla Síðuskóla í kvöld í boði Íslenskra verðbréfa, fá Snæfell í heimsókn. Þórsarar verða helst að vinna leikinn til að komast í úrslitakeppnia, með sigri eru þeir öruggir en ef þeir tapa verða þeir að treysta á að Hamar vinni ÍR og Tindastóll vinni Stjörnuna. Leikurinn er líka mikilvægur fyrir Snæfell sem er að keppast við að ná heimavallarréttinum í 8 liða úrslitum af Njarðvík. Þeir verða þó að treysta á að Grindavík vinni Njarðvík. Leikurinn verður í beinni textalýsingu á heimasíðu Þórs.
Margir vilja meina að leikur Stjörnunnar og Tindastóls sé úrslitaleikur um áttunda sætið í deildinni og það síðasta í úrslitakeppninni, þessu eru Þórsarar vissulega ekki sammála. En leikurinn í Garðabænum getur haft mikla þýðingu fyrir bæði lið, háð öðrum úrslitum getur sigur fleytt liði í úrslitakeppnina. Það eru þó mörg ef í þessu og við tökum þann pakka hér aðeins neðar. Leikurinn verður í beinni í nýju upplýsingakerfi KKÍ.
ÍR tekur á móti Hamri, lið Hamars er fallið og keppir aðeins um stoltið. ÍR þarf þó að vinna til að vera öruggt í sjöunda sæti deildarinnar. En þó þeir tapi eru þeir öruggir í úrslitakeppnina. Fylgst verður með leiknum á karfan.is.
Að síðustu taka deildarmeistarar Keflavíkur á móti Fjölni sem er fallið. Staða þessara liða getur ekkert breyst nema að Fjölnir getur orðið í 11. sæti í stað 12. sæti. Það er þó ljóst að Keflavík mun taka við deildarmeistaratitlinum í kvöld. Leikurinn verður í beinni í nýju upplýsingakerfi KKÍ.
Þá er það flækjan í kringum áttunda sætið en þar snýst þetta um fjögur lið, ÍR, Þór, Stjörnuna og Tindastól. Eins og staðan er í dag eru ÍR og Þór með 18 stig og Stjarnan og Tindastóll með 16.
Fari svo að ÍR og Þór vinni komast þau tvö áfram og hin tvö sitja eftir.
Tapi ÍR og Þór vinnur þá fara þau tvö áfram, sama hvernig fer í Garðabæ.
Vinni ÍR, Þór tapar og Stjarnan vinnur þá eru Þór og Stjarnan jöfn og Þór situr eftir.
Vinni ÍR, Þór tapar og Tindastóll vinnur þá eru Þór og Tindastóll jöfn og Þór situr eftir.
Tapi ÍR, Þór tapar og Stjarnan vinnur þá eru þessi þrjú jöfn og Þór situr eftir.
Tapi ÍR, Þór tapar og Tindastóll vinnur þá eru þessi þrjú jöfn og Tindastóll situr eftir.
Það er því ljóst að það er að miklu að keppa á mörgum vígstöðvum í kvöld.
Allir á völlinn.
Mynd:



