Sjöunda umferðin í Iceland Express deild karla hefst í kvöld með þremur leikjum sem allir byrja kl. 19:15. Tindastóll fær Hamar í heimsókn, ÍR tekur á móti Snæfell og Keflavík mætir Haukum í Toyota-höllinni í Reykjanesbæ.
Keflavík-Haukar
Keflvíkingar gerðu góða ferð í Grafarvog í síðustu umferð og lögðu Fjölni, Keflavík hefur nú unnið tvo síðustu deildarleiki gegn KR og Fjölni eftir nokkuð hikst í upphafi tímabils. Haukar lögðu ÍR að Ásvöllum í síðustu umferð en fyrir kvöldið er Keflavík í 7. sæti deildarinnar með 6 stig og Haukar í 5. sæti einnig með 6 stig.
Tindastóll-Hamar
Eru Stólarnir komnir á sporið? Frækinn sigur þeirra í Garðabæ undirstrikaði enn eina ferðina hve jöfn og flott úrvalsdeildin er þetta tímabilið. Hamar sat hjá í síðustu umferð þar sem leik þeirra gegn KFÍ var frestað sökum ófærðar og Hvergerðingar því væntanlega orðnir spenntir fyrir því að komast út á gólfið og sýna hvað í þeim býr.
ÍR-Snæfell
Hér mætast botninn og toppurinn. ÍR mátti þola tap í síðustu umferð gegn Haukum en Snæfell urðu fyrstir til að leggja topplið Grindavíkur svo Gunnar Sverrisson og hans menn í Hellinum mega galdra fram dúndurframmistöðu í kvöld ef þeir ætla sér eitthvað gegn meisturunum.



