spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Sjötta umferðin af stað í IEX karla

Leikir dagsins: Sjötta umferðin af stað í IEX karla

 
Í kvöld hefst sjötta umferðin í Iceland Express deild karla og eru þrír leikir á dagskránni sem venju samkvæmt hefjast allir kl. 19:15. Stórslagur kvöldsins er viðureign Íslands- og bikarmeistara Snæfells og Grindavíkur í Stykkishólmi. Grindvíkingar eru einir og ósigraðir á toppi deildarinnar en Snæfell er í 2.-3. sæti ásamt Stjörnunni, bæði lið með 8 stig.
Leikir kvöldsins í IEX karla:
 
Snæfell-Grindavík
Fjölnir-Keflavík
Haukar-ÍR
 
Í síðustu umferð hafði Snæfell nauman 92-94 útisigur gegn Tindastól en Grindvíkingar fóru létt með ÍR 115-94. Eftir ÍR leikinn varð ljóst að Andre Smith yrði ekki meira með í vetur enda baðst leikmaðurinn lausnar undan samningi sínum í Röstinni sökum persónulegra mála. Helgi Jónas þjálfari Grindvíkinga sagði við Karfan.is á dögunum að hann vonaðist til að nýr leikmaður væri kominn til liðsins fyrir Snæfellsleikinn í kvöld en samkvæmt félagsskipablaði KKÍ sem aðgengilegt er á heimasíðu félagsins hefur enginn leikmaður skipt yfir í Grindavík.
 
Fjölnismenn tóku Hauka í kennslustund í síðustu umferð, 107-81. Þeir verða á heimavelli annað sinni í röð í kvöld þegar Keflavík kemur í heimsókn en Keflvíkingar lögðu KR í spennandi slag í síðustu umferð 95-91. Valentino Maxwell er kominn á ný inn í raðir Keflvíkinga eftir að hafa setið meiddur á bekk liðsins fyrstu fjórar umferðirnar og þá þótti nýji Evrópuleikmaður Keflavíkur, Lazar Trifunovic, sýna góða takta í sínum fyrsta leik á Íslandi… sigurleiknum gegn KR.
 
Haukar og ÍR mætast svo að Ásvöllum í kvöld en bæði lið eiga það sammerkt að hafa fengið á sig rúm 100 stig í síðustu umferð og raunar hafa Haukar fengið á sig 100 stig eða meira í síðustu tveimur leikjum og freista þess væntanlega að þétta vörn sína í kvöld. Haukar hafa tapað þremur deildarleikjum í röð en ÍR einum svo annað hvort liðið kemst á réttan kjöl eftir kvöldið.
 
 
Einn leikur er svo í 1. deild karla í kvöld en þá mætast Höttur og FSu á Egilsstöðum.
 
Fréttir
- Auglýsing -