09:20
{mosimage}
(Hreggviður og félagar í ÍR eiga hörkuleik í vændum í Röstinni í kvöld)
Elleftu umferð í Iceland Express deild karla lýkur í kvöld með þremur leikjum og þar með eru leikir kvöldsins þeir síðustu í úrvalsdeild á árinu 2008. Botnlið Skallagríms fær Íslandsmeistara Keflavíkur í heimsókn, Grindavík tekur á móti ÍR og Blikar halda norður í land og mæta Tindastól. Allir leikirnir hefjast kl. 19:15.
Það er fagnaðarerindi fyrir Keflavík að Þröstur Leó Jóhannsson sé kominn aftur á ról en Gunnar Einarsson, besti maður úrslitakeppninnar á síðasta tímabili, hefur verið að glíma við bakmeiðsli og ekki er gert ráð fyrir að hann verði aftur með fyrr en eftir áramót. Þá er meiðslalisti Skallagríms efni í góða masters ritgerð en fróðlegt verður að sjá hvort Borgnesingar nái að landa sínum fyrsta sigri í kvöld.
Grindavík og ÍR hafa verið á mikilli siglingu undanfarið. Grindavík aðeins búið að tapa einum deildarleik og það gegn toppliði KR en ÍR hefur unnið síðustu fimm deildarleiki sína í röð eða alla leiki síðan Hreggviður Magnússon snéri aftur í raðir ÍR. Hvor sigurgangan verður stöðvuð í kvöld kemur í ljós en það er von á hörkuleik í Röstinni.
Nokkuð hefur kvarnast úr liði Blika og Tindastóls og þar sem tvö vængbrotin lið koma saman er von á spennuleik. Darrell Flake fór nýverið í hnéaðgerð og þá eru þeir Aðalsteinn Pálsson og Hjalti Vilhjálmsson líkast til búnir að spila sína síðustu leiki fyrir Blika í vetur nema ef komi til skjótur bati.
Fjölmennum á vellina í kvöld og fáum okkur vænan skammt af körfubolta svona rétt fyrir jól!



