Í kvöld lýkur sautjándu umferð í Iceland Express deild karla þar sem þrír leikir verða á dagskránni og hefjast þeir allir kl. 19:15. Þetta eru jafnframt síðustu leikirnir í úrvalsdeildum karla og kvenna fyrir bikarúrslit sem fara fram í Laugardalshöll næstkomandi Laugardag.
Leikir kvöldsins (kl. 19:15).
Grindavík-Breiðablik
Tindastóll-Stjarnan
FSu-Snæfell
Grindvíkingar eru á besta rólinu í úrvalsdeild um þessar mundir og hafa unnið þrjá deildarleiki í röð. Gulir hafa 22 stig í 5. sæti deildarinnar og taka á móti Breiðablik í kvöld en Blikar eru í fallsæti þrátt fyrir að hafa unnið tvo síðustu deildarleiki sína. Það er þó ekki öll nótt úti enn hjá Blikum þar sem næstu fjögur lið fyrir ofan Kópavogsfélagið hafa aðeins 2-4 stigum meira.
Á Sauðárkróki mætast heimamenn og Stjarnan en Tindastóll á í hörku baráttu um sæti í úrslitakeppninni á meðan Stjörnumenn eygja von um deildarmeistaratitil. Stjarnan hefur 24 stig í 2. sæti deildarinnar en Stólarnir eru með 10 stig í 9. sæti og unnu einn sinn stærsta sigur á tímabilinu þegar þeir komu í Garðabæ fyrir áramót og lögðu heimamenn 93-95.
Selfyssingar taka svo á móti Snæfell á Selfossi í kvöld. Nú fer hver að verða síðastur á Selfossi til þess að hala inn stigum því eftir kvöldið í kvöld eru bara 10 stig í pottinum og FSu á því möguleika á því að næla sér í 12 stig til viðbótar að því gefnu að þeir vinni alla sína leiki sem eftir eru. Átta stig skilja nú að FSu og þau lið sem eru hólpin í deildinni því má ekki mikið út af bera og ljóst að í næstu tveimur til þremur umferðum gætu örlög þeirra ráðist. Þá þurfa Ingi Þór Steinþórsson og félagar í Snæfell að púsla sér aftur saman eftir tap gegn Fjölni í Grafarvogi í síðustu umferð. Ingi Þór sagði í samtali við Karfan.is eftir þann leik að hann væri þess fullviss að sínir menn myndu svara tapinu gegn Fjölni fullum hálsi á Selfossi.



