Í kvöld lýkur 16. umferð í Domino´s deild karla og að henni lokinni eru þá sex umferðir eftir og því 12 stig í pottinum fyrir liðin. Þrír leikir eru á dagskránni í kvöld og hefjast þeir allir kl. 19:15.
Leikir kvöldsins, 19:15
Fjölnir – Keflavík
Stjarnan – Njarðvík
Grindavík – ÍR
Fjölnir – Keflavík
Það var síðast í miðju góðærinu árið 2007 sem Fjölnir vann Keflavík í deildarleik úrvalsdeildar í Dalhúsum. Allar götur síðan þá hafa Keflvíkingar fagnað sigri í Grafarvogi. Nú fer hver að verða síðastur til að snúa þessari þróun við í Grafarvogi þar sem Fjölnismenn eru í 11. sæti deildarinnar með 8 stig rétt eins og ÍR en bæði þessi lið eru í fallsætum. Keflavík að sama skapi er í 4. sæti deildarinnar með 20 stig og hafa unnið síðustu fimm deildarleiki í röð. Fjölnir hefur tapað síðustu sex deildarleikjum sínum svo heitt og kalt mætast í Dalhúsum í kvöld.
Stjarnan – Njarðvík
Njarðvík vann síðast deildarleik í Garðabæ í október 2008 en þó þessi tvö lið séu við hvert annað í töflu deildarinnar eru engu að síður sex stig sem skilja þau að fyrir leik kvöldsins. Stjarnan í 6. sæti með 18 stig og Njarðvík í 7. sæti með 12 stig. Síðast þegar liðin mættust í deildinni í Ljónagryfjunni þurfti að tvíframlengja þar sem Stjarnan hafði betur að lokum.
Grindavík-ÍR
Breiðhyltingar þurfa að leita fimm ár aftur í tímann til að finna sigur gegn Grindavík í Röstinni. Toppliðið og botnliðið eru að mætast í þessum slag en ÍR-ingar sýndu á sér batamerki með stórum sigri gegn Skallagrím í síðustu umferð og Grindavík vann sinn þriðja deildarleik í röð þegar þeir lögðu Njarðvík í Ljónagryfjunni. Hér gæti mögulega orðið nokkuð athyglisverður slagur ef ÍR-ingum hefur tekist að hlaða ofan á Skallagrímssigurinn með nýjan Herbert Arnarson í brúnni.
Mynd/ Brian Mills og félagar í Stjörnunni fá Njarðvíkinga í heimsókn í kvöld.



