spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Sautjánda umferðin hefst í dag

Leikir dagsins: Sautjánda umferðin hefst í dag

 
Í dag hefst sautjánda og síðasta umferðin í Iceland Express deild karla fyrir Subwaybikarúrslitin sem fram fara í Laugardalshöll næstkomandi laugardag. Þrír leikir eru á dagskránni í kvöld þar sem topplið KR tekur á móti Fjölni í DHL-Höllinni.
 
Leikir kvöldsins í IEX deild karla:
 
19:15: KR-Fjölnir
19:15: ÍR-Keflavík
19:15: Njarðvík-Hamars
 
KR situr á toppi deildarinnar með 26 stig og tvö stig í viðbót eftir kvöldið færir Íslandsmeistarana skrefi nær deildarmeistaratitlinum. KR hefur enn ekki fengið sér nýjan Bandaríkjamann síðan þeir létu Semaj Inge fara frá félaginu en Inge fann sér samastað hjá Haukum og smellti niður 46 stigum með Hafnarfjarðarliðinu gegn ÍA síðasta föstudag. KR-ingar verða því kanalausir í kvöld þegar Grafarvogspiltar í Fjölni mæta í heimsókn og má gera ráð fyrir miklum slag enda fengu Snæfellingar að kynnast því í Grafarvogi í síðustu umferð að Fjölnir er sýnd veiði en ekki gefin.
 
Eftir góðan leik í Garðabæ máttu ÍR-ingar engu að síður þola tap gegn Stjörnunni en stóðu sig vel í fjarveru lykilmanna sinna þeirra Hreggviðs og Sveinbjarnar Claessen. ÍR tekur á móti Keflavík í Íþróttahúsi Kennaraháskólans í kvöld en ÍR hefur tapað sex síðustu deildarleikjum sínum og sitja í 8. sæti deildarinnar með 10 stig. Keflavík er í 2. sætinu með 24 stig og veita KR-ingum verðuga samkeppni um deildarmeistaratitilinn rétt eins og fjögur næstu lið á eftir Keflavík.
 
Njarðvíkingum hefur heldur fatast flugið síðustu misseri en þeir fá Hamar í heimsókn í Ljónagryfjuna í kvöld. Njarðvík hefur tapað síðustu þremur deildarleikjum sínum og Hamarsmenn hafa tapað síðustu tveimur deildarleikjum og því mætast lið í Ljónagryfjunni áfjáð í stig.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -