spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Sautjánda umferð hefst hjá körlunum

Leikir dagsins: Sautjánda umferð hefst hjá körlunum

Í kvöld hefst sautjánda umferðin í Domino´s deild karla en þá eru fjórir leikir á dagskrá og venju samkvæmt allir kl. 19:15. Nýkrýndir bikarmeistarar Stjörnunnar mæta í Hertz Hellinn og leika þar gegn ÍR sem situr á botni deildarinnar.

Leikir kvöldsins í Domino´s deild karla:
 
ÍR – Stjarnan
Njarðvík – KR
Snæfell – Fjölnir
Grindavík – Skallagrímur (beint á Sport TV)
 
ÍR-Stjarnan
ÍR situr á botni deildarinnar með 8 stig en Stjarnan í 6. sæti með 18 stig. Það þarf vart að tíunda hvað tvö stig þýða fyrir ÍR hér í kvöld og kannski ekki síður Stjörnuna sem berst hart fyrir heimaleikjarétti í úrslitakeppninni svo hér gæti orðið ansi forvitnilegur slagur. ÍR og Stjarnan hafa sex sinnum mæst í deildarkeppni úrvalsdeildar í Breiðholti, ÍR hefur aðeins unnið tvo af þessum leikjum en Stjarnan fjóra.
 
Njarðvík-KR
Njarðvíkingar eru komnir vel á veg með sætið sitt í úrslitakeppninni en það er skammt á milli feigs og ófeigs þessa dagana. Að sama skapi er KR í svipuðum málum og Stjarnan, að berjast á fullu fyrir heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Rimmur þessara tveggja klúbba ná langt aftur í fornöld eða til ársins 1970 þar sem KR vann í Ljónagryfjunni 42-71. KR hefur unnið tvo síðustu deildarleiki í Ljónagryfjunni og samtals þrjá síðustu leiki gegn Njarðvík ef með er talin úrslitakeppnin.
 
Snæfell-Fjölnir
Hólmarar eru í bullandi toppbaráttu þessi dægrin og sitja í 2. sæti deildarinnar með 24 stig en Fjölnir líkt og ÍR er á botni deildarinnar með 8 stig. Fjölnir hefur aðeins einu sinni unnið sigur í deildarleik í Hólminum og var það skömmu fyrir jól 2007.
 
Grindavík-Skallagrímur
Topplið Grindavíkur mætir aftur til leiks eftir að hafa þegið silfurverðlaun út úr Laugardalshöll. Skallagrímsmenn koma þá í heimsókn en Borgnesingar töpuðu með 50 stiga mun síðast þegar þeir mættu í röstina í ársbyrjun 2009. Skallagrímsmenn hafa þó gert góða ferð til Grindavíkur í deildarkeppni og síðast unnu þeir í Röstinni í ársbryjun 2007.
 
Staðan í deildinni
Nr. Lið U/T Stig
1. Grindavík 13/3 26
2. Snæfell 12/4 24
3. Þór Þ. 11/5 22
4. Keflavík 11/5 22
5. KR 9/7 18
6. Stjarnan 9/7 18
7. Njarðvík 7/9 14
8. Skallagrímur 6/10 12
9. KFÍ 5/11 10
10. Tindastóll 5/11 10
11. Fjölnir 4/12 8
12. ÍR 4/12 8
 
Mynd/ [email protected] – Bikarmeistarar Stjörnunnar mæta í Hertz Hellinn í kvöld.
Fréttir
- Auglýsing -