Einn leikur fer fram í Domino´s deild karla í kvöld en þá mætast Skallagrímur og Njarðvík í Borgarnesi. Leikurinn hefst kl. 19:15. FSu og Breiðablik mætast svo í 1. deild karla og hefst viðureignin í Iðu einnig kl. 19:15.
Njarðvíkingar geta með sigri í kvöld komist upp í 3. sæti deildarinnar og upp fyrir Grindavík sem leikur ekki fyrr en á föstudag. Borgnesingar eru aftur á móti að berjast fyrir tilverurétti sínum í deildinni eins líka sæti í sjálfri úrslitakeppninni. Sem fyrr má treysta á góða stemmningu í Fjósinu enda Fjósamenn alþekktir fyrir líflega frammistöðu á pöllunum.
Í 1. deildinni þá er mikilvægi stiga kvöldsins ekki síðra. FSu er í 8. sæti deildarinnar með 10 stig en Breiðablik í 5. sæti með 12 stig og eru sem stendur með sæti í úrslitakeppninni. Úrslitakeppnin er þó vel innan seilingar fyrir Selfyssinga svo hér er á ferðinni mikill slagur.
Þá fer fram einn leikur í unglingaflokki kvenna í kvöld þegar Breiðablik tekur á móti Haukum kl. 18:00 í Smáranum.
Mynd/ Landsliðsmaðurinn Logi Gunnarsson mætir ásamt Njarðvíkingum í Borgarnes í kvöld.



