Í kvöld lýkur átjándu umferðinni í Iceland Express deild kvenna með tveimur leikjum sem báðir hefjast vitaskuld kl. 19:15. Í Hafnarfirði mætast Haukar og Valur en í Ljónagryfjunni eigast við Njarðvík og Keflavík en þessi lið léku einmitt mikinn spennuleik í 8-liða úrslitum Poweradekeppninnar á mánudag þar sem Njarðvíkingar höfðu betur eftir framlengingu.
Njarðvíkingar geta með sigri í kvöld jafnað Keflavík á toppi deildarinnar þar sem Njarðvík er með 26 stig í 2. sæti en Keflavík 28 stig á toppi deildarinnar. Haukar færðust í gær niður í fjórða sæti deildarinnar þar sem KR náði í tvö góð stig gegn Fjölni en með sigri í kvöld geta Haukar endurheimt þriðja sæti deildarinnar.
Einn leikur er í 1. deild kvenna í kvöld þegar Grindavík tekur á móti Breiðablik kl. 19:30 í Röstinni í Grindavík og Hekla fær HK í heimsókn í 2. deild karla kl. 20:00 á Hellu.
Mynd/ [email protected] – Frá viðureign Njarðvíkur og Keflavíkur í bikarkeppninni síðastliðinn mánudag.