spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Nítjánda umferð karlaboltans hefst í kvöld

Leikir dagsins: Nítjánda umferð karlaboltans hefst í kvöld

Í kvöld hefst nítjánda umferðin í Domino´s deild karla. Hver slagurinn rekur annan, þrír af fjórum leikjum kvöldsins hefjast kl. 19:15 en viðureign ÍR og KFÍ hefst kl. 19:30 í Hertz Hellinum í Breiðholti. Topplið Grindavíkur tekur á móti KR í Röstinni, Snæfell fær Keflavík í heimsókn í Hólminn og bikarmeistarar Stjörnunnar taka á móti Skallagrím í Ásgarði.
 
Leikir dagsins:
 
Grindavík – KR
Grindavík er á toppi deildarinnar með 28 stig en KR í 6. sæti með 20 stig. Grindvíkingar verða án Jóhanns Árna Ólafssonar í kvöld sem tekur út leikbann. Gulir hafa unnið þrjá síðustu heimaleiki sína í röð en röndóttum hefur gengið illa á útivelli undanfarið og tapað þremur síðustu leikjum sínum.
 
Snæfell – Keflavík
Svakalegur leikur þar sem Keflavík getur með sigri jafnað Snæfell að stigum í deildinni, í dag eru Hólmarar með 26 stig í 3. sæti en Keflavík með 24 stig í 4. sæti deildarinnar. Keflvíkingar sáu endi á sjö leikja sigurgöngu sinni í Borgarnesi í síðustu umferð á meðan Hólmarar eru að herða róðurinn á heimavelli og búnir að vinna þar tvo leiki í röð.
 
Stjarnan-Skallagrímur
Garðbæingar hafa leikið eins og þeir sem valdið hafa eftir frægðarför í Laugardalshöll. Eftir bikartitilinn hafa komið tveir sterkir deildarsigrar gegn ÍR og Grindavík. Borgnesingar hafa síðan tapað þremur síðustu útileikjum sínum en bitu allhressilega frá sér í síðustu umferð þegar þeir lögðu heitasta lið landsins, Keflavík.
 
ÍR-KFÍ
Vart þarf að fjölyrða um vigt þessa leiks, nú þegar 8 stig eru í pottinum eiga bæði lið enn möguleika á því að fara í úrslitakeppni en eins og áður hefur komið fram er áttunda sæti það hæsta sem KFÍ, Fjölnir og ÍR geta komist héðan af. ÍR hefur betur innbyrðis í baráttu þessara tveggja liða þar sem þeir unnu fyrri leikinn á Jakanum. Sigur í kvöld kæmi ÍR í 10. sæti, KFÍ í fallsæti eða 11. sæti og Fjölnismenn sem leika á morgun myndu þá fara í tólfta og síðasta sætið uns úrslit yrðu kunn í leik þeirra gegn Njarðvík annað kvöld. KFÍ hefur tapað fjórum deildarleikjum í röð og ÍR síðustu þremur, bæði lið hungrar því í stig og þarna mun gefa að líta tvo kappa sem hafa verið iðnir við kolann, Eric Palm í liði ÍR og Damier Pitts í liði KFÍ.
 
Magnað kvöld framundan í Domino´s deild karla en viðureign Grindavíkur og KR verður í beinni netútsendingu á Sport TV og verður það 999. útsending vefsins sem stendur á tímamótum.
 
Þá er einn leikur í 1. deild karla í kvöld þegar Höttur tekur á móti Breiðablik á Egilsstöðum. Leikurinn hefst kl. 18:30 en Höttur er í 4. sæti 1. deildar karla með 18 stig en Blikar í 6. sæti með 14 stig.
 
 
Staðan í Domino´s deild karla
Nr. Lið U/T Stig
1. Grindavík 14/4 28
2. Þór Þ. 13/5 26
3. Snæfell 13/5 26
4. Keflavík 12/6 24
5. Stjarnan 11/7 22
6. KR 10/8 20
7. Njarðvík 9/9 18
8. Skallagrímur 7/11 14
9. Tindastóll 6/12 12
10. KFÍ 5/13 10
11. Fjölnir 4/14 8
12. ÍR 4/14 8
  
Fréttir
- Auglýsing -