spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Lýsingarbikar á fullu og einn leikur í IE deild karla

Leikir dagsins: Lýsingarbikar á fullu og einn leikur í IE deild karla

8:39

{mosimage}

Anthony Susnjara og Hlynur Bæringsson munu eflaust takast á í dag 

Í dag fer fram einn leikur í Iceland Express deild karla þegar Þórsarar á Akureyri taka á móti Grindavík í Síðuskólanum. Þórsarar steinlágu í síðustu umferð fyrir Njarðvík en Grindavík vann góðan sigur Íslandsmeisturum KR en það var jafnframt fyrsti leikur Helga Jónasar Guðfinnssonar í vetur. Honum tókst þó ekki að skora og spurningin er hvort honum tekst að skora í kvöld. Með sigri í kvöld kemst Grindavík jafnframt í annað sæti deildarinnar, verða jafnir KR en hafa unnið KR í báðum deildarleikjum vetrarins. Að venju er að finna skemmtilega upphitun fyrir leikinn á heimasíðu Þórs.

 

Í Lýsingarbikar karla fara fram þrír leikir. Í Borgarnesi tekur Skallagrímur á móti bikarmeisturum ÍR en Skallagrímsmenn hafa verið á góðu skriði undanfarið á meðan ÍR ingar töpuðu á Sauðárkróki á föstudag.

Í Stykkishólmi verða Keflvíkingar í heimsókn en þessi lið hafa leikið marga fjöruga leikina undanfarin ár, nú síðast á föstudag í Iceland Express deildinni í Keflavík þar sem Keflavík vann með 3 stigum.

Í Njarðvík verður svo enn einn stórleikurinn þegar liðin sem léku til úrslita um Íslandsbikarinn í fyrra, Njarðvík og KR, mætast. Liðin mættust í deildinni í vetur í DHL höllinni þar sem Helgi Már Magnússon skoraði ævintýralega þriggja stiga körfu í lok leiksins og tryggði KR sigur. Rimmur Njarðvíkur og KR hafa í marga áratugi boðið upp á líf og fjör og ljóst að áhorfendur fá eitthvað fyrir aurinn. Bæði lið eru með upphitun á síðum sínum, hér má sjá Njarðvíkurupphitun og hér er KR upphitun.

En það er ekki bara leikið í Lýsingarbikar karla, konurnar etja kappi líka. Í Stykkishólmi tekur efsta lið 1. deildar, Snæfell, á móti neðsta liði Iceland Express deildarinnar, Fjölni. Snæfellsstúlkur hafa leikið mjög vel í vetur og eru eflaust fullar sjálfstrausts á meðan Grafarvogsstúlkurnar hafa þurft að lúta í lægra hald oft í vetur. Það verður þó eflaust gaman fyrir aðstoðarþjálfara Fjölnis, Ágúst Jensson, að mæta í sinn gamla heimabæ með lið sitt og honum myndi eflaust ekki leiðast að taka sigurinn með sér heim.

Seinasti leikur 8 liða úrslita Lýsingarbikars kvenna er leikur bikarmeistara Hauka og Hamars. Liðin mættust í Hveragerði í vikunni þar sem Haukar fóru með nauman sigur. Haukastúlkur hafa ekki verið sannfærandi í vetur en Hamarsstúlkur hafa verið í botnbaráttunni þó þær hafi einstaka sinnum bitið frá sér í baráttunni við toppliðin.

[email protected]

Mynd: www.vf.is/jbo

 

Fréttir
- Auglýsing -