Tveir leikir fara fram í undanúrslitum Iceland Express deildar kvenna í kvöld þegar KR tekur á móti Haukum og Hamar fær Keflavík í heimsókn í Hveragerði. Leikur Hamars og Keflavíkur hefst kl. 19:15 en viðureign KR og Hauka hefst kl. 20:00 í Vesturbænum. Þá hefst líka úrslitakeppnin í 1. deild karla þegar Haukar fá Þór Þorlákshöfn í heimsókn að Ásvöllum.
KR leiðir einvígið gegn Haukum 2-0 og geta með sigri í kvöld sent Hauka í sumarfrí og komið sjálfum sér í úrslit deildarinnar. KR vann fyrstu viðureign liðanna örugglega en Haukar bitu frá sér á heimavelli en KR lönduðu samt sigri. Staðan í einvígi Hamars og Keflavíkur er svo 1-1 þar sem Keflavík vann síðustu viðureign liðanna í Toyota-höllinni eftir að Hamar hafði tekið 1-0 forystu í blómabænum.
Í 1. deild karla mætast Haukar og Þór Þorlákshöfn í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst áfram í úrslitaviðureignina um laust sæti í Iceland Express deildinni á næstu leiktíð. Haukar luku keppni í 2. sæti 1. deildar en Þór Þorlákshöfn var í fyrsta sæti. Í hinum undanúrslitaslagnum í deildinni mætast svo Valur og Skallagrímur en það einvígi hefst ekki fyrr en á sunnudag.



