spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaLeikir dagsins: Kemst Garðabær á toppinn?

Leikir dagsins: Kemst Garðabær á toppinn?

Falur mætir með Fjölni á heimaslóðir

Í kvöld lýkur níundu umferð í Domino´s-deild karla. Tveir leikir eru á dagskránni þegar Keflavík fær Fjölni í heimsókn í Blue-höllina kl. 18.30 og Stjarnan tekur svo á móti Íslandsmeisturum KR kl. 20.15 í Mathús Garðabæjar höllinni. Þá eru þrír leikir í 1. deild karla og fleiri í neðri deildum og yngri flokkum svo það ætti allt körfuboltafólk að hafa nóg fyrir stafni í kvöld.

Domino´s-deild karla

18.30 Keflavík – Fjölnir
Stuðull Lengjunnar á Fjölnissigur er 5,97 fyrir kvöldið og Keflavík fær nettan 1,04. Svo sem ekki að ósekju sem stuðlastjóri Lengjunnar kastar þessu fram en lítum aðeins á þetta. Keflavík í 2. sæti deildarinnar með 12 stig þar sem Tindastóll skaust á toppinn með sigri í gær. Keflvíkingar búnir að tapa síðustu tveimur deildarleikjum en endurheimta í kvöld Milka sem tók út leikbann í síðustu umferð. Fjölnismenn að sama skapi nýliðar í deildinni með tvö stig eftir átta leiki. Við stjórnartaumana í Grafarvogi er Falur Harðarson sem er Keflavík að góðu kunnur en hann þarf að draga fram allt það besta í sínum mönnum ef þeir ætla sér að gera leik úr kvöldinu.

20:15 Stjarnan – KR
Með sigri hér kemst Stjarnan á toppinn með Tindastól en KR á kost á því að færa sig ofar í töflunni og komast í 12 stig með sigri og þannig jafna Stjörnuna að stigum. Þetta verður vægast sagt glíma af bestu gerð því KR lá í síðustu umferð á heimavelli gegn Njarðvík og Stjarnan prísaði sig sæla með Tomsick sín megin til að klára nýliða Þórs frá Akureyri. Í kvöld ætlar Lengjan að veðja á Stjörnuna með 1,47 í stuðul og KR 2,32.

Þrír leikir í 1. deild karla
Allir kl. 19:15

Hamar-Sindri
Hamarsmenn fá Sindra í heimsókn í Blómabæinn og geta með sigri komist við hlið Hattar á toppi deildarinnar en fyrir kvöldið er Höttur með 16 stig í níu leikjum og Hamar 14 stig í átta leikjum. Sindramenn að sama skapi verma botninn með Hólmurum en eiga leik kvöldsins til góða gegn Snæfell. Bæði lið með tvö stig á botninum.

Selfoss-Breiðablik
Blikar eru í 3. sæti deildarinnar með 14 stig en Selfyssingar í 6. sæti með 6 stig. Blikar unnu góðan 79-85 útisigur á Vestra í síðustu umferð og Selfyssingar hafa unnið tvo síðustu deildarleiki sína.

Vestri-Snæfell
Vestramenn fá Snæfell í heimsókn, heimamenn munu vafalítið selja sig dýrt enda ekki gott að hleypa toppliðunum of langt frá. Hólmarar að sama skapi í dauðaleit að fleiri stigum svo hér gæti vel orðið hörku leikur!

Allir leikir dagsins

Fréttir
- Auglýsing -