spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Heil umferð í úrvalsdeild kvenna í kvöld

Leikir dagsins: Heil umferð í úrvalsdeild kvenna í kvöld

Tólf stig eru eftir í pottinum í Iceland Express deild kvenna og því geta enn orðið töluverðar breytingar á röðun í deildinni en í kvöld fer fram 23. umferðin og hefjast allir leikirnir kl. 19:15. Topplið Keflavíkur fær Hamar í heimsókn og nýkrýndir bikarmeistarar Njarðvíkur taka á móti KR í Ljónagryfjunni.
Leikir kvöldsins í IEX deild kvenna, 19:15:
 
Fjölnir-Valur
Snæfell-Haukar
Njarðvík-KR
Keflavík-Hamar
 
Fjölnir-Valur
Ljóst er að þó Fjölnir vinni alla sína leiki sem eftir eru komast þær ekki í úrslitakeppnina, með 12 stigum tækist þeim að ná 22 stigum eða jafn mörgum og Snæfell hefur nú í 5. sæti deildarinnar en eins og áður hefur verið kynnt eru aðeins fjögur efstu lið deildarkeppninnar sem skipa úrslitakeppnina. Valskonur eiga hinsvegar meiri möguleika og með því að vinna alla leiki sem eftir eru ná þær 28 stigum en þurfa þá að stóla á slæmt gengi liðanna fyrir ofan sig.
 
Snæfell-Haukar
Hér eru afar verðmæt stig á ferðinni. Eins og staðan er í dag eru Haukar inni í úrslitakeppninni í 3. sæti með 24 stig en vinni Snæfell í kvöld jafna þær Hauka og KR að stigum að því gefnu að KR tapi í Ljónagryfjunni.
 
Njarðvík-KR
Njarðvíkingar og Keflvíkingar eru svo gott sem komnir í úrslitakeppnina, fátt ef nokkuð bendir til þess að Njarðvíkingar gefi eftir annað sætið og ætli sér að láta Keflavík hafa verulega fyrir deildarmeistaratitlinum. KR þarf á sigri að halda enda í bullandi baráttu fyrir sæti sínu í úrslitakeppninni þar sem Haukar og Snæfell anda ofan í hálsmál þeirra.
 
Keflavík-Hamar
Óhætt er að skrifa Hamar út úr úrslitakeppninni að svo stöddu, með því að vinna alla leiki sína sem eftir eru og bæði KR og Haukar tapi öllum sínum verða Hamarskonur jafnar að stigum við Hauka og KR eða með 24 stig. Þetta er ekki langsótt heldur fjarstæðukennt í svo jafnri og spennandi deild en Hamar verða þó að klára af krafti og berjast fyrir tilverurétti sínum í deildinni enda munar aðeins tveimur stigum á þeim og Fjölni. Keflavík hefur þægilegt fjögurra stiga forskot í deildinni en mega ekki við feilsporum þar sem Njarðvíkingar sækja fast á hæla þeira í baráttunni um heimaleikjarétt út alla úrslitakeppnina og vitaskuld sjálfan deildarmeistaratitilinn.
 
Staðan í deildinni
Nr. Lið U/T Stig
1. Keflavík 18/4 36
2. Njarðvík 16/6 32
3. Haukar 12/10 24
4. KR 12/10 24
5. Snæfell 11/11 22
6. Valur 8/14 16
7. Hamar 6/16 12
8. Fjölnir 5/17 10
 
Fréttir
- Auglýsing -