Í dag fer fram heil umferð í Iceland Express deild kvenna. Einn leikur hefst kl. 15:00 og er það viðureign Snæfells og Njarðvíkur en hinir þrír leikirnir hefjast kl. 16:00.
Leikir dagsins:
15:00: Snæfell-Njarðvík
16:00: Keflavík-KR
16:00: Valur-Haukar
16:00: Hamar-Grindavík
Nú þegar sex stig eru eftir í pottinum hafa KR-ingar tryggt sér deildarmeistaratitilinn en baráttan um annað sætið og hjáseturéttinn í fyrstu umferð úrslitakeppninnar er í algleymingi. Keflavík hefur heldur betur fundið fjölina undanfarið og hafði betur í síðustu viðureign gegn KR þegar liðin mættust í DHL-Höllinni. Nú hittast liðin í Toyota-Höllinni en Keflavík og Grindavík deila saman 2. sæti deildarinnar þar sem bæði lið hafa 22 stig.
Njarðvíkingar mæta miðherjalausir í Hólminn í dag eins og þegar hefur komið fram þar sem Helga Jónasdóttir er úr leik sökum meiðsla. Njarðvík steinlá gegn Haukum í síðustu umferð en Snæfell vann góðan sigur á Val og minnkuðu muninn í 4 stig á milli þeirra og Njarðvíkinga. Með sigri í dag tekst Snæfell að minnka muninn í 2 stig en Njarðvík og Snæfell eru einu liðin í B-riðli sem eiga möguleika á síðasta sætinu í úrslitakeppninni þar sem Valskonur eru aðeins með 4 stig en eru þó ekki endanlega fallnar. Valur fellur í dag ef þær tapa gegn Haukum og ef Snæfell leggur Njarðvík.
Hamar og Grindavík mætast svo í Hveragerði en Hamar situr á botni A-riðils með 18 stig en Grindavík og Keflavík hafa 22 stig. Enn er von fyrir Hamarskonur til að klifra ofar en það þýðir að þær þurfi eiginlega að vinna alla þrjá leiki sína sem eftir eru.



