spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Heil umferð í Iceland Express deild kvenna

Leikir dagsins: Heil umferð í Iceland Express deild kvenna

10:55
{mosimage}

(Mun Signý Hermannsdóttir gera Keflvíkingum lífið leitt í teignum í kvöld?) 

Þrír leikir eru á dagskrá í Iceland Express deild kvenna í kvöld sem allir hefjast kl. 19:15. Baráttan um sætin í toppi deildarinnar harðnar og nú er skammt að bíða úrslitakeppninnar svo von er á miklum baráttuleikjum á næstunni sem hafa reyndar verið nokkuð einkennandi fyrir deildarkeppnina í vetur. 

Toppslagur kvöldsins er viðureign Keflavíkur og Vals sem fram fer í Sláturhúsinu í Keflavík. Keflvíkingar sitja á toppi deildarinnar með 30 stig og hafa unnið alla níu heimaleiki sína í deildarkeppninni í vetur en Valur hefur verið á góðri siglingu að undanförnu og í umferðum 10-17 vann liðið 6 af 8 deildarleikjum sínum. Takist Val að landa sigri sækja þær enn á Hauka í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni en ef Keflavík vinnur gætu þær náð fjögurra stiga forskoti í deildinni.  

Hæpið er engu að síður að Keflavík nái fjögurra stiga forskoti í deildinni í kvöld þar sem Grindvíkingar taka á móti Fjölni í Röstinni í Grindavík. Grindvíkingar hafa aðeins tapað einum heimaleik í vetur gegn Haukum í framlengdum spennuleik og því þykja Fjölniskonur ekki líklegar til afreka suður með sjó. Grindavík hefur 28 stig í 2.-3. sæti deildarinnar en geta með sigri í kvöld komist upp fyrir KR sem situr hjá í þessari umferð. 

Íslands- og bikarmeistarar Hauka taka svo á móti næst neðsta liði deildarinnar, Hamri, að Ásvöllum í kvöld og verða Haukar að ná fram sigri til þess að halda Valskonum fjarri. Hamar á ekki lengur möguleika á því að komast í úrslitakeppnina þar sem aðeins 10 stig til viðbótar eru í boði fyrir Hamar en Haukar hafa 22 stig og Hamar 6.  

Þá er einnig leikið í yngri flokkum í dag. Haukar taka á móti Hamri/Þór í bikarkeppninni í 10. flokki karla og hefst leikurinn kl. 21:00 að Ásvöllum í kvöld. Njarðvíkingar fá svo KR í heimsókn í bikarkeppni 9. flokks karla og hefst leikurinn kl. 20:00 í Njarðvík. 

Staðan í Iceland Express deild kvenna

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -