Þrír síðustu leikirnir í fjórtándu umferð Iceland Express deildar karla fara fram í kvöld og hefjast þeir allir kl. 19:15. Kapparnir á www.sporttv.is verða í Ljónagryfjunni og sýna beint frá Suðurnesjaslag Njarðvíkur og Grindavíkur.
Njarðvíkingar geta styrkt stöðu sína á toppi deildarinnar með sigri en Grindvíkingar hafa verið að glíma við töluverð meiðsli undanfarið og verður fróðlegt að sjá hverjir skipa skýrsluna hjá gulum og glöðum í kvöld.
FSu fer í leit að sínum fyrsta sigri á tímabilinu þegar þeir mæta Breiðablik í Smáranum og Tindastóll mætir KR í DHL-Höllinni.
Þá er einn leikur í bikarkeppni drengjaflokks í kvöld þegar Fjölnir tekur á móti Stjörnunni kl. 20:25 í Dalhúsum í Grafarvogi.



