spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Fimmtándu umferð lýkur í kvöld

Leikir dagsins: Fimmtándu umferð lýkur í kvöld

 
Í kvöld lýkur fimmtándu umferð í Iceland Express deild karla en umferðin hófst í gær þar sem Grindavík, Snæfell og Breiðablik lönduðu sigrum. Í kvöld hefjast allir leikirnir kl. 19:15 venju samkvæmt en Tindastóll tekur á móti Hamri, Njarðvík fær Fjölni í heimsókn á Selfossi mætast FSu og Stjarnan.
Með sigri á Fjölni í kvöld geta Njarðvíkingar endurheimt toppsæti sitt í deildinni en grænir hafa fengið tvo þétta löðrunga undanfarið enda bjuggust flestir við því að þeir myndu eflast ennfrekar við komu Nick Bradford. Það hefur hinsvegar ekki gengið sem skyldi í Ljónagryfjunni og tap í bikar gegn Keflavík og í deild gegn Grindavík ætti að gera Fjölnismönnum nokkuð erfitt fyrir í kvöld. Blikar náðu að auka á spennuna við botninn í gærkvöldi með sigri á ÍR og nú eru Breiðablik og Fjölnir jöfn að stigum, bæði lið með 6 stig.
 
Tindastóll fær Hamar í heimsókn á Krókinn en liðin eru á mörkum úrslitakeppninnar. Hamar í 7. sæti með 12 stig en Tindastóll í 9. sæti með 8 stig. Þýðingarmikill leikur hjá báðum liðum en Stólarnir bættu nýverið við sig Cedric Isom og Litháanum Donatas Visockis og ættu þeir að vera orðnir löglegir fyrir leikinn í kvöld. Tindastóll hefur tapað síðustu þremur deildarleikjum sínum en Hamar hefur unnið tvo síðustu leiki sína.
 
Á Selfossi mætast FSu og Stjarnan en Selfyssingar kræktu í sín fyrstu stig í deildinni á dögunum með sigri á Breiðablik í Kópavogi. Garðbæingar eru hinsvegar í bullandi baráttu á toppnum og bættu nýverið við sig Serba að nafni Djordje Pantelic og þá hefur varnarbakkarinn öflugi Ólafur Jónas Sigurðsson snúið aftur frá Danmörku og mun klára tímabilið með Stjörnunni. Nánar um þessi mál á eftir.
 
Tveir leikir fara fram í 1. deild karla í kvöld sem hefjast báðir kl. 19:15. Ármann tekur á móti Skallagrím í Laugardalshöll og botnlið Hrunamanna fær Þór Akureyri í heimsókn.
 
Fréttir
- Auglýsing -