spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Fimm leikir í Iceland Express deild karla

Leikir dagsins: Fimm leikir í Iceland Express deild karla

12:03
{mosimage}

Fimm leikir fara fram í Iceland Express deild karla í kvöld og hefjast þeir allir kl. 19:15. Topplið Keflavíkur mætir Þór Akureyri fyrir Norðan og Íslandsmeistarar KR heimsækja Snæfell í Stykkishólm. 

Keflavík situr á toppi deildarinnar með 24 stig þegar 13 umferðum er lokið í deildinni. Á meðan er Þór í 9. sæti deildarinnar með 10 stig og á í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Þór og Keflavík mættust í fyrri deildarleik liðanna í Keflavík þann 25. október sl. þar sem Keflavík hafði góðan 99-85 sigur í leiknum. Þá setti Gunnar Einarsson niður 21 stig fyrir Keflavík en Luka Marolt gerði 32 stig fyrir Þór. 

Njarðvíkingar heimsækja bikarmeistara ÍR í Seljaskóla en Njarðvík er í 4. sæti deildarinnar með 16 stig en ÍR hefur 10 stig í 7. sæti. Liðin mættust í Ljónagryfjunni þann 26. október þar sem Njarðvíkingar fóru með 83-68 sigur af hólmi. Í þeim leik gerði Hörður Axel Vilhjálmsson 26 stig fyrir Njarðvíkinga en Ómar Örn Sævarsson átti góða dag fyrir ÍR með 16 stig og 18 fráköst.  

Sannkallaður botnslagur verður í Grafarvogi í kvöld þegar Fjölnir tekur á móti Hamri en liðin sitja á botni deildarinnar með sex stig. Þegar liðin mættust í Hveragerði hafði Hamar sigur 73-62 en síðan þá hafa liðin tekið nokkrum breytingum og verður fróðlegt að sjá hvort liðið getur híft sig um stund upp af botni deildarinnar.  

Kristinn Friðriksson og félagar í Tindastól mæta í Borgarnes í kvöld en Skallagrímsmenn hafa verið að vakna til lífsins undanfarið og hafa m.a. unnið síðustu tvo deildarleiki sína. Skallagrímur situr í 5. sæti deildarinnar með 14 stig en Tindastóll hefur 10 stig í 8. sæti. Þegar liðin mættust á Króknum höfðu heimamenn sigur 102-90. 

Íslandsmeistarar KR heimsækja Snæfellinga í Stykkishólm í kvöld en viðureignir þessara liða eru jafnan hjartastyrkjandi. KR hafði 12 stiga sigur í fyrri leik liðanna þann 25. október síðastliðinn, 85-73. Íslandsmeistararnir leita nú eftir sínum fyrsta sigri síðan Jeremiah Sola kom aftur til liðs við KR.  

Þá fer einn leikur fram í bikarkeppni yngri flokka þegar Ármann tekur á móti UMFN í 11. flokki karla í Laugardalshöll kl. 18.30. 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -