7:00
{mosimage}
Úr fyrri viðureign Þórs og Stjörnunnar
Sautjánda umferð Iceland Express deildar karla hefst í kvöld með þremur leikjum. Þá fer fram einn leikur í A riðli Iceland Express deildar kvenna auk fjölmargra leikja í yngri flokkum.
Í Iceland Express deild karla taka Snæfellingar á móti Breiðablik á heimavelli. Snæfellingar unnu góðan sigur á Keflavík í Keflavík á föstudag og þurfa á sigra hvern leik til að halda í þriðja sætið sem þeir hafa nú komið sér fyrir í. Blikar eru í baráttu um að komast í úrslitakeppni og fá þar gott sæti svo sigur er þeim líka mikilvægur. Fyrri leik liðanna í Smáranum í Kópavogi lauk ekki fyrr en eftir framlengingu þar sem Snæfellingar höfðu betur.
Stjarnan tekur á móti Þór frá Akureyri. Stjarnan er á miklu skriði og hefur einungis tapað einum leik eftir jól. Það gæti þó verið að hugur einhverra leikmanna verði í Laugardalshöllinni í kvöld en eftir viku leikur Stjarnan til bikarúrslita í fyrsta sinn. Þeir eru þó líkt og Blikar að berjast um sæti í úrslitakeppninni og að fá gott sæti þar svo þeim má ekkert skrika fótur. Þórsarar eru aftur á móti komnir í vonda stöðu, eru næst neðstir með fjórum stigum minna en næsta lið og því verða þeir hreinilega að vinna leiki eins og við Stjörnuna til að bjarga sér frá falli.
Njarðvík tekur á móti botnliði Skallagríms. Valur Ingimundarson þjálfari Njarðvíkinga ætti að þekkja vel til Skallagrímsmanna. Njarðvíkingar hafa verið brokkgengir undanfarið og þurfa að halda einbeitingunni gegn Skallagrímsmönnum sem þurfa að vinna hvern leik til að halda sér uppi. Heath Sitton mun leika sinn fyrsta leik með Njarðvík frá því í Powerradebikarnum en hann kom í byrjun vikunnar til landsins.
Í Iceland Expressdeild kvenna verður toppslagur þegar Haukastúlkur taka á móti Keflavík. Haukar hafa 6 stiga forskot á Keflavík núna og með sigri í kvöld tryggja Haukastúlkur sér deildarmeistaratitilinn.
Eins og fyrr segir fara fram fjölmargir leikir í yngri flokkum og má finna yfirlit yfir þá hér.
Mynd: Rúnar Haukur Ingimarsson