spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Fara Keflvíkingar í sumarfrí?

Leikir dagsins: Fara Keflvíkingar í sumarfrí?

08:55
{mosimage}

Í kvöld hefjast úrslitin í 1. deild karla með viðureign Vals og Fjölnis og þá mætast KR og Keflavík í sínum þriðja leik í undanúrslitum Iceland Express deildar karla kl. 19:15 í DHL-Höllinni. Það verða því tveir hörkuleikir á dagskrá í kvöld og ættu körfuknattleiksunnendur að geta fengið talsvert fyrir sinn snúð þar sem leikur Vals og Fjölnis hefst kl. 20:00 í Vodafonehöllinni og ekki nema um 5 mínútna akstur á milli Hlíðarenda og Frostaskjóls.

KR leiðir einvígið gegn Keflavík 2-0 og þurfa aðeins einn sigur til viðbótar og þá eru Íslandsmeistarar Keflavíkur komnir í sumarfrí. Keflavík hefur enn ekki tekist að vinna sigur á KR á þessari leiktíð og eru af þeim sökum með bakið upp við vegg. KR-ingar hafa að sama skapi ekki tapað heimaleik og eins og Fannar Ólafsson lét frá sér á dögunum ætla Vesturbæingar ekki að fara að taka upp á þeim ósið þegar hingað er komið í keppninni. Keflvíkinga bíður því ærinn starfi og verður fróðlegt að sjá hvort Sigurður Ingimundarson hafi fyrir hönd Keflavíkur fundið lausnina á því hvernig vinna eigi KR. Fyrst þurfa Keflvíkingar að fara í gegnum Jón Arnór Stefánsson sem hefur farið á kostum í rimmunni gegn Keflavík en hann gerði t.d. 35 stig í síðustu viðureign liðanna.

Valur og Fjölnir mætast í sinni fyrstu úrslitaviðureign í 1. deild í kvöld og eru það Valsmenn sem eiga heimaleikjaréttinn og því fer fyrsti leikurinn fram í Vodafonehöllinni. Bæði Valur og Fjölnir þurftu að leika oddaleik til að komast í úrslitin, Valur lagði KFÍ 2-1 og Fjölnir hafði betur gegn Haukum 2-1 eftir tvo útisigra gegn Hafnfirðingum. Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki tekur sæti í Iceland Express deild karla með Hamri á næstu leiktíð.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -