10:31
{mosimage}
(Verður endurtekið efni í Vesturbænum?)
Þrír leikir fara fram í Iceland Express deild karla í kvöld þegar 18. umferð deildarinnar fer af stað. Allir þrír leikirnir í Iceland Express deildinni hefjast kl. 19:15 og verður væntanlega fjölmennt á viðureign KR og bikarmeistara Stjörnunnar sem mætast í DHL-Höllinni en þessi lið léku til bikarúrslita síðasta sunnudag þar sem Garðbæingar lönduðu sínum fyrsta stórtitli í sögu Stjörnunnar.
Á Akureyri mætast Þór og Njarðvík og í Borgarnesi tekur Skallagrímur á móti Tindastól. Skallagrímsmenn eru þegar fallnir um deild þar sem þeir geta aðeins jafnað FSu að stigum en FSu hefur betur í innbyrðisviðureignum svo Borgnesingar leika í 1. deild á næsta ári.
Í Vesturbænum verður margt fróðlegt að sjá. Hafa KR-ingar jafnað sig á bikarósigrinum? Eru Stjörnumenn komnir niður á jörðina eða eru þeir ennþá að fagna? Svör við þessum spurningum fást í DHL-Höllinni í kvöld en Benedikt og félagar í KR hafa nú tapað tveimur leikjum í röð eftir að hafa unnið alla leiki sína frá undirbúningstímabilinu og þangað til KR mætti Grindavík í síðustu umferð. Fyrri deildarleikur KR og Stjörnunnar fór 81-90 fyrir KR í leik sem var hörkuspennandi frá upphafi til enda. Stjarnan vann svo bikarúrslitaleikinn 78-76 og nú er komið að þriðju viðureign liðanna í vetur.
{mosimage}
(Félagarnir Bandy og Sitton mætast á Íslandi en léku saman í Bandaríkjunum)
Mikið vinaeinvígi verður háð á Akureyri í kvöld þegar Þór tekur á móti Njarðvík. Daniel Bandy mun klára leiktíðina með Þór þar sem Cedric Isom kemur ekki aftur í raðir Þórsara. Bandy mun hitta fyrir í leiknum sinn gamla skólafélaga Heath Sitton en báðir léku þeir með College of the Ozarks All-Americans. Komið hefur verið upp Facebook síðu sem heitir Sitton vs. Bandy og á vefmiðlinum Branson Daily News er sagt frá komandi einvígi þessara fyrrum liðsfélaga. Sigur fyrir Þór í kvöld er gríðarlega mikilvægur en eins og sakir standa eru Þórsarar í fallsæti með 8 stig en Njarðvík í 5. sæti með 18 stig.
Skallagrímsmenn leika í 1. deild á næstu leiktíð og því aðeins spurning um hvort þeir nái að bíta aðeins frá sér og valda öðrum liðum skráveifu áður en þeir kveðja úrvalsdeildina. Tindastóll er sem stendur í 9. sæti og á í harðri baráttu um að komast inn í úrslitakeppnina.
Einn leikur er í 1. deild karla þegar Ármann tekur á móti Haukum kl. 19:00 í Laugardalshöll. Síðasti leikur þessara liða var æsispennandi en honum lauk með sigri Hauka í framlengingu. Ármann hefur unnið tvo leiki í röð í deildinni eins og Haukar, en Haukar lögðu Fjölni í síðasta leik í framlengingu í æsispennandi leik. Haukar stefna hraðbyri að úrslitakeppninni og Ármenningar eru að rétta úr kútnum eftir brösugt gengi í upphafi árs. Því má búast við hörku viðureign þessara tveggja liða.
Körfuknattleiksdeild Ármanns hefur ákveðið að allur ágóði af leiknum muni renna óskiptur til góðgerðarmála en aðgangseyrir verður aðeins 800 kr. fyrir 16 ára og eldri. Vert er að benda á að sjálfsögðu er hægt að greiða með korti og því geta geta allir mætt með bros á vör.
Fleiri leikir eru á dagskrá í kvöld sem má nálgast hér: http://kki.is/leikvarp.asp