Skammt er stórra högga á milli þessi dægrin enda úrslitakeppnirnar í fullum gangi. Í kvöld verða tveir risaslagir þegar Hamar og Njarðvík mætast í oddaleik í Iceland Express deild kvenna og Stjarnan tekur svo á móti Snæfell í Ásgarði og verður leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Báðir leikirnir hefjast kl. 19:15.
Hamar-Njarðvík, oddaleikur í Hveragerði
Staðan í einvíginu er 2-2 og hafa allir sigrarnir komið á heimavelli liðanna. Síðast þegar Njarðvíkingar mættu í Blómabæinn fengu grænar háðuglega útreið og ætla vísast að kvitta fyrir það í kvöld. Í fyrra lék Hamar oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn gegn KR og svengir deildarmeistarana í eitthvað annað og meira en silfur en Njarðvíkingar ættu ekki síður að vera hungraðir enda hefur kvennalið félagsins aldrei leikið til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í úrvalsdeild kvenna. Njarðvíkingar hafa brugðið á það ráð að splæsa í fríar sætaferðir í dag og ljóst að þeir fjölmenna á pallana í kvöld, sætaferðirnar leggja af stað kl. 17:15 frá Ljónagryfjunni.
Stjarnan-Snæfell, leikur 2 í Ásgarði
Garðbæingar hafa 1-0 forystu í einvíginu eftir að hafa orðið fyrsta liðið á Íslandsmótinu til að vinna sigur í Stykkishólmi þegar liðin mættust þar í fyrsta slag undanúrslitanna. Áður höfðu Hólmarar aðeins tapað í bikarnum gegn Njarðvík á heimavelli þetta tímabilið. Að þessu sögðu hefur Stjarnan ekki tapað í síðustu fimm heimaleikjum sínum að meðtalinni úrslitakeppninni og má gera ráð fyrir miklum slag í kvöld enda eru stykkorðin úr fyrsta leik liðanna eftirfarandi: sveiflur, blóð, rusltal og drama.
Fjölmennum á vellina!