10:14
{mosimage}
(Nick Bradford mætir í kvöld sínum gömlu liðsfélögum í Keflavík)
Þrír leikir fara fram í Iceland Express deild karla í kvöld þegar 18. umferð lýkur. Stórslagur verður á Suðurnesjum þegar Íslandsmeistarar Keflavíkur taka á móti Grindavík í Toyotahöllinni en allir leikirnir í úrvalsdeild karla hefjast kl. 19:15.
Grindavík fylgir KR sem skugginn á toppi deildarinnar. KR hefur nú 34 stig en Grindavík 30 en gulir hafa betur innbyrðis gegn KR. Ef Grindavík vinnur í kvöld verður munurinn á milli toppliðanna að nýju 2 stig en síðasta viðureign Grindavíkur og Keflavíkur fór 80-79 fyrir Grindavík. Nick Bradford sem gerði garðinn frægan hér á landi með Keflavík er nú eins og flestum er kunnugt leikmaður Grindavíkur og mætir því fyrrum liðsfélögum sínum í Keflavík. Íslandsmeistararnir eiga nú í harðri baráttu við Snæfell um 3. sætið í deildinni en Snæfellingar hafa betur innbyrðis. Bæði lið hafa 22 stig í deildinni en það er óhætt að segja að þau komist ekki ofar í töflunni þar sem Grindavík hefur nú 8 stiga forskot á Keflavík og Snæfell en KR hefur 12 stiga forskot.
Snæfellingar mæta í Seljaskóla í kvöld og leika gegn ÍR sem situr í 8. sæti deildarinnar með 14 stig. Snæfell hefur unnið tvo síðustu deildarleiki sína en töpuðu þar á undan naumlega 75-80 gegn toppliði KR í Stykkishólmi.
Nýliðaslagur verður svo í Smáranum þegar Breiðablik tekur á móti FSu. EF FSu vinnur leikinn í kvöld hafa þeir næsta örugglega sent Þór Akureyri í 1. deild. Þór er í 11. sæti með 8 stig en FSu er í 10. sæti með 12 stig og er innbyrðisstaða FSu og Þórs ansi athyglisverð. Liðin hafa unnið sinn hvorn leikinn sína á milli bæði með 10 stiga mun og í heildina hafa liðin gert 183 stig í leikjunum svo viðureignirnar eru jafnar. Þegar lið eru jöfn í sambanburði eins og FSu og Þór í þessu tilfelli þá ræður næst heildarstigatala liðanna í deildinni, þ.e. skoruð stig. Ef FSu vinnur Breiðablik í kvöld verður Þór að vinna alla leiki sína sem eftir eru og FSu að sama skapi að tapa rest, að öðrum kosti lítur allt út fyrir að Þór leiki í 1. deild á næstu leiktíð. Blikar eru í 7. sæti deildarinnar í suðupottinum skemmtilega þar sem aðeins munar 4 stigum á liðinu í 6. sæti og liðinu í 10. sæti.
Tveir leikir eru á dagskrá í 1. deild karla en Valur og UMFH mætast í Vodafonehöllinni kl. 20:00 og Laugdælir taka á móti KFÍ kl. 19:15 á Laugarvatni.
Þá mætast KR og ÍBV í bikarkeppninni í 11. flokki karla og hefst leikurinn kl. 21:00 í DHL-Höllinni. Ef ÍBV vinnur verður það í fyrsta sinn í íslenskum körfuknattleik sem lið úr Vestmannaeyjum kemst í bikarúrslit!
Mynd: [email protected]



