Í kvöld hefst átjánda umferðin í Iceland Express deild karla og eru þrír leikir á dagskránni sem allir hefjast kl. 19:15. Subwaybikarmeistarar Snæfells taka á móti ÍR í Stykkishólmi en Hólmarar eru funheitir þessa dagana en ÍR-ingar að sama skapi hafa tapað síðustu sjö deildarleikjum sínum.
Leikir kvöldsins í IEX karla (kl.19:15):
Snæfell-ÍR
Stjarnan-Grindavík
Fjölnir-FSu
Toppslagur kvöldsins er viðureign Stjörnunnar og Grindavíkur í Ásgarði en bæði lið berjast nú hart um toppsætin í deildinni. Stjarnan hefur 26 stig í 3. sæti deildarinnar á meðan Grindavík hefur 24 stig 4. sæti deildarinnar og getur því með sigri í kvöld jafnað Stjörnuna að stigum.
Nýliðar Fjölnis taka á móti FSu í Grafarvogi í kvöld en Fjölnismenn hafa gefið það hispurslaust út að þeir ætli sér sæti í úrslitakeppninni þetta tímabilið. Þó útlitið sé svart hjá Selfyssingum þá er fallið enn ekki orðið að staðreynd þó liðið hafi aðeins 2 stig á botninum. Fall í 1. deild veltur á því hvort FSu t.d. vinni leik kvöldsins og hvort FSu vinni rest leikja sinna og þar á meðal viðureignir gegn Tindastól og ÍR sem bæði hafa 10 stig.
Staðan í deildinni
Þá er einn leikur í 1. deild karla í kvöld þegar Haukar taka á móti Ármanni að Ásvöllum kl. 19:15.
Ljósmynd/ Grindvíkingar mæta í Ásgarð í kvöld.



