spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Að duga eða drepast hjá KR

Leikir dagsins: Að duga eða drepast hjá KR

09:18
{mosimage}

(Guðrúnu Ámundadóttur og KR-ingum dugir ekkert annað en sigur í kvöld!)

Heil umferð fer fram í Iceland Express deild kvenna í kvöld og er viðureign KR og Vals í DHL-Höllinni vafalítið sá mikilvægasti. Takist Valskonum að landa sigri skilja þær KR eftir í B-hluta deildarinnar en ef KR vinnur eru liðin jöfn að stigum. Röðun í A og B hlutann skýrist þá ekki fyrr en miðvikudaginn 21. janúar þegar venjulegri deildarkeppni í kvennaflokki lýkur. Allir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15.

Fyrri viðureign Vals og KR fór fram þann 12. nóvember þegar KR vann spennuþrunginn sigur á Val í Vodafonehöllinni 57-59. Nú eigast liðin við í DHL-Höllinni og KR konur á bullandi siglingu með sjálfstraustið í botni eftir stórsigur á toppliði Hauka í Subwaybikarnum fyrir skemmstu.

Botnliðin Snæfell og Fjölnir mætast í Stykkishólmi og mun annaðhvort liðið næla sér í langþráðan sigur en bæði lið hafa tvö stig á botni deildarinnar. Liðin mættust í Grafarvogi í fyrri umferðinni þar sem Fjölnir hafði öruggan 84-65 sigur á nýliðunum.

Topplið Hauka tekur á móti Grindavík að Ásvöllum en þegar er ljóst að Grindavík mun leika í B-hluta deildarinnar og Haukar í A-hlutanum. Að lokinni þessari viðureign liðanna í kvöld geta þau ekki mæst að nýju fyrr en í úrslitakeppninni.

Að lokum mætast Keflavík og Hamar í Toyotahöllinni en liðin léku þar síðast í Subwaybikarnum þar sem Keflavík skaut Hamri út úr keppninni með miklum yfirburðum og ljóst að Hamarskonur sakna sárlega Juliu Demirer.

Aðrir leikir kvöldsins:

Fjölnir og Haukar mætast í bikarkeppninni í 11. flokki karla kl. 18:45 í Grafarvogi.
Valur og Haukar mætast kl. 20:30 í Vodafonehöllinni í bikarnum í 10. flokki kvenna.
Reynir Sandgerði mætir Mostra í 2. deild karla kl. 19.15 í Sandgerði.
Grindavík og Njarðvík mætast í bikarkeppninni í 10. flokki karla kl. 20:00 í Grindavík.
FSu mætir Fjölni B í bikarnum í 10. flokki karla kl. 20:30 á Selfossi.
Hamar tekur á móti Val í drengjaflokki kl. 19:00 í Hveragerði.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -