spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: 18. umferð karla lýkur í kvöld

Leikir dagsins: 18. umferð karla lýkur í kvöld

06:00
{mosimage}

(Eiríkur Önundarson og ÍR-ingar taka á móti KR í kvöld) 

Tveir leikir fara fram í Iceland Express deild karla í kvöld þegar 18. umferð lýkur. Báðir hefjast leikirnir kl. 19:15. Íslandsmeistarar KR mæta ÍR í Seljaskóla í Reykjavíkurslag og Grindavík tekur á móti Fjölni sem er við botn deildarinnar en leikur til bikarúrslita um næstu helgi. 

Með sigri í kvöld geta KR-ingar að nýju jafnað Keflavík á toppi deildarinnar en KR hleypti enn meiri spennu í baráttuna um deildarmeistaratitilinn með því að leggja Keflavík 80-69 í DHL-Höllinni síðasta föstudag. Með Fannar Ólafsson að nýju í röðum KR eftir meiðsli er ekki annað að sjá á Íslandsmeisturunum en að aukið sjálfstraust sé komið í þeirra leik. ÍR hinsvegar gerðu glæsiför í Grafarvog á dögunum og gersamlega rótburstuðu lærisveina Bárðs Eyþórssonar í Fjölni 67-112. Það er því von á miklum barningi í Seljaskóla í kvöld. 

Grindvíkingar eiga enn möguleika á því að verða deildarmeistarar en þeir verma 3. sæti deildarinnar með 26 stig og taka á móti Fjölni í Röstinni í kvöld. Fjölnismenn vilja væntanlega sýna að þeir séu betra lið en það sem mætti til leiks gegn ÍR í síðustu umferð. Grindvíkingar gerðu góða ferð í Borgarnes í síðustu umferð og lögðu heimamenn í Skallagrím 88-95 og gerðu 19 stig gegn 3 frá heimamönnum á síðustu mínútum leiksins.  

Í Iceland Express deild kvenna mætast svo KR og Hamar í Hveragerði kl. 19:15 og með sigri geta KR konur jafnað Grindavík í 2. sæti deildarinnar en Hamar á ekki lengur kost á því að komast í úrslitakeppnina. Þá mun Candace Futrell leika sinn fyrsta deildarleik með KR í kvöld en hún kom til liðs við Vesturbæjarveldið í stað Monique Martin sem varð frá að víkja sökum erfiðra meiðsla. 

Hægt er að smella hér til að sjá yfirlit yfir alla leiki dagsins í öðrum deildum og yngri flokkum. 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -