spot_img
HomeFréttirLeikgleði ÍR-inga dugði ekki gegn trekktum Stjörnumönnum

Leikgleði ÍR-inga dugði ekki gegn trekktum Stjörnumönnum

ÍR-ingar mættu í Ásgarð í kvöld glaðir og reifir. Þeir tryggðu sæti sitt í deildinni í síðustu umferð og höfðu svo sem ekki að miklu að keppa í leik kvöldsins. Stjörnumenn gátu í besta falli náð fimmta sætinu sem hlýtur að vera talsverð vonbrigði. Í versta falli gat liðið endað í áttunda sæti og það er vont sæti, sama hvað hver segir. Það var álíka mikil stemmning í húsinu og á döpru upphitunarmóti og herra Garðabær kynnti ekki einu sinni liðin til leiks – kannski vegna vandræða með grillið.
 
Gestirnir byrjuðu leikinn með bros á vör og leikgleðin skein úr hverju andliti. Það voru allir óhræddir við að láta til sín taka og ÍR-ingar leiddu með nokkrum stigum allan fyrsta leikhlutann. Stjörnumenn virkuðu andlausir og svolítið ergilegir, leikgleðin og pressuleysi gestanna virtist jafnvel fara í taugarnar á heimamönnum. Jeremy var sá eini sem var vel tengdur hjá Stjörnunni en níu leikmenn, ég endurtek NÍU leikmenn voru búnir að skora fyrir ÍR-inga í fyrsta leikhluta! Staðan 25-30 eftir fjórðunginn.
 
Jeremy hélt áfram að leiða heimamenn og var með heil 24 stig í hálfleik! Fleiri Stjörnumenn komu sér smátt og smátt inn í leikinn og vörnin skánaði enda ekki vanþörf á! ÍR-ingar héldu samt áfram að skemmta sér og Trey gladdi áhorfendur með kraftmiklum troðslum! Stjarnan kom sér að vísu ekki yfir fyrr en 3 mínútur voru eftir af leikhlutanum en enduðu sterkt og höfðu 55-47 forskot í hálfleik.
 
Það þurfti engan með skyggnigáfu til að spá því að heimamenn myndu síga enn frekar framúr í þriðja leikhluta. Bjarni var ekkert spar á mínútur minni spámönnum ÍR-inga til handa á meðan heimamenn höfðu vissulega að einhverju að keppa í þessum leik. Munurinn fór fljótt upp í 10 stig en vafalaust mörgum til undrunar hélt leikgleði gestanna áfram að skila frábærum hlutum! Trey var vissulega áberandi en margir aðrir sýndu fína takta og ÍR-ingar komust 68-71 yfir þegar rúmar 3 voru eftir af leikhlutanum! Eftir m.a. fjölkunnuga körfu og víti að auki frá Degi endaði Stjarnan þó ofan á, 76-73 fyrir fjórða leikhluta.
 
Það var einkum skárri vörn heimamanna og kannski döpur hittni gestanna í fjórða leikhluta sem gerði gæfumuninn í kvöld. Um miðjan leikhlutann voru Stjörnumenn komnir 91-80 yfir og Dagur gerði út um leikinn skömmu síðar með góðri þriggja stiga körfu. Eftir nokkrar dæmigerðar ruslamínútur lauk leik með tiltölulega öruggum 101-88 sigri Stjörnunnar.
 
Fimmta sætið er niðurstaðan hjá bikarmeisturunum þetta árið sem er ekki það sem liðið stefndi að. Leikurinn í kvöld segir kannski ekki mikið um ástandið á liðinu en það sýndi a.m.k. ekki sparihliðarnar að neinu marki. Jeremy var langatkvæðamestur með 40 stig og 17 fráköst og er sennilega tilbúinn í úrslitakeppnina! Dagur og meistari Shouse voru með 17 stig en hafa báðir spilað betur.
 
ÍR-ingar geisluðu af hamingju í þessum leik og nánast eins og hver leikmaður væri að leika í 40 mínútna langri dömubindaauglýsingu! Bindið lak reyndar smá í fjórða leikhluta en þeir eiga mikið hrós skilið fyrir að gera leikinn skemmtilegan. Trey var vissulega atkvæðamestur með 26 stig og 10 fráköst en 10 leikmenn komust á blað og gátu allir sem einn gengið stoltir af velli. Að vísu fór einn með sjúkrabíl frá Ásgarði vegna veikinda og honum sendum við góðar batakveðjur.
 
 
Bjarni Magnússon, þjálfari ÍR, var meira en tilbúinn til að ræða við karfan.is eftir leikinn:
Þið höfðuð ekki að miklu að keppa í raun en mér fannst mikil leikgleði skína af liðinu í kvöld – þið buðuð upp á mjög hressandi frammistöðu og gekk vel langt frameftir leik.
Já, takk fyrir það – það var náttúrulega bara planið í kvöld. Við höfðum ekki að neinu að keppa nema bara að njóta þess að spila í þessum síðasta leik tímabilsins. Allir fengu að spila – strákar sem hafa setið svolítið á bekknum fengu svoldið að spila í dag. Ég sagði þeim og liðinu öllu að bara njóta þess að spila og hafa gaman.
 
Já, og þeir virðast hafa gert það – 10 leikmenn skora hjá þér og stóðu sig vel.
Já, það er bara flott. Það var ekki verið að taka mikið af leikhléum hjá liðunum í dag og menn ætluðu að hafa gaman af þessu. Ég hélt þó að Stjarnan kæmi kannski grimmari inn í leikinn en þeir unnu þetta samt nokkuð örugglega að lokum. En eins og ég segi þá var það planið hjá okkur í dag að koma inn í þennan leik og njóta þess frá a-ö að spila körfubolta og spila saman.
 
Þýðir eitthvað að spyrja þig um það núna hvernig þetta lítur út með næsta tímabil hvað varðar þína stöðu og stöðuna á leikmannahópnum?
Við gerðum í fyrra þriggja ára samning og það verður sest niður eftir helgina og farið yfir málin og hvort það sé ekki áframhaldandi samstarfsvilji hjá báðum aðilum. Einnig hvernig málin standa með leikmannahópinn, vonandi verða allir áfram – það er helst Matti sem fer jafnvel af landi brott en ég vona sannarlega að þessir strákar verði allir áfram. 
 
Hópurinn leit í raun bara vel út í leiknum í kvöld.
Jájá, það hefur verið talað svolítið um það í vetur að við hefðum átt að enda ofar í deildinni en við vorum náttúrulega í mörgum leikjum þar sem við hentum sigrinum frá okkur og við erum með fínan hóp. Við höfum metnaðarfulla stráka sem hafa verið duglegir að æfa og hefur verið gaman að þjálfa í vetur. Hópurinn í kringum liðið er ekkert rosalega stór en rosalega þéttur og við eigum góða stuðningsmenn þannig að ég held að ÍR-ingar geti bara farið að hlakka til næsta tímabils.
 
Takk fyrir þetta og til hamingju með að halda sæti ykkar í deildinni.
Já takk fyrir!
 
 
Kjartan Atli, stórskyttan snjalla og aðstoðarþjálfari Stjörnunnar, hafði þetta að segja eftir leikinn:
Það er ykkur væntanlega talsverð vonbrigði að hafa ekki átt séns á meiru en 5. sætinu fyrir þennan leik?
Já, það voru mikil vonbrigði! Við ætluðum okkur meira í upphafi tímabils en við tókum smá dýfu eftir bikarúrslitin sem hefur oft gerst en ætluðum okkur að sjálfsögðu ekki. Það voru dýrir leikir, þrír í röð sem töpuðust en lítið hægt að gera í því núna. Við höfum hins vegar verið í þessari stöðu áður, í fyrra vorum við í sjöunda en kláruðum fyrstu seríuna þannig að það getur allt gerst.
 
Þið hljótið að hafa lagt mikla áherslu á að vinna þennan leik, áttunda sætið hefði mögulega getað orðið ykkar og það er nú ekki gott sæti.
Jájá, en þau eru svo sem öll slæm, það að vera ekki í topp fjórum er bara vont yfir höfuð. Við fórum auðvitað í þennan leik til að vinna. Þetta hefði svo sem getað spilast allt öðruvísi. En við tökum þessu. Við erum sáttir við að fá Njarðvík – við erum nýbúnir að tapa fyrir þeim.
 
Það skiptir nú líka talsverðu máli hvernig staðan er á liðinu núna fyrir alvöruna. Hvað viltu segja um hana?
Ég bara veit það ekki alveg, það er erfitt að lesa í þetta. Við vorum mjög seinir í gang í dag – við vorum kannski stressaðir eða þreyttir, ekki gott að segja. Ég held nú þó að þegar á hólminn er komið þá eru þetta menn sem að hafa farið þarna áður allir saman og úrslitakeppnin hefur verið hjá þeim elstu í liðinu hreinlega eins og annað heimili undanfarin ár! 
Þetta verður bara rosalega gaman og skemmtilegt að mæta Teiti Örlygssyni – hann er mikill herforingi eins og Friðrik Ingi. Það hefur verið skemmtileg stemmning á millli Stjörnunnar og Njarðvíkur og það heldur áfram núna. Það er kannski líka ágætt að fá ekki Keflavík – komið gott af því í bili!
 
Mér fannst leikgleði ÍR-inga til fyrirmyndar í dag en mér fannst vanta kannski svolítið af henni hjá þínum mönnum – hvað segiru um það?
Já, ég er alveg sammála þér. Við vorum einmitt að ræða það – ég veit ekki alveg hvað skýrir það. Kannski skýrist það bara af því að ÍR-ingar höfðu enga pressa á sér og leyfðu minni spámönnum að spila. Allt sem þeir gerðu var plús og þeir fögnuðu öllum körfum sem komu stundum úr óvæntri átt og í fyrsta leikhluta voru níu ÍR-ingar búnir að skora. En kannski vorum við bara svolítið trekktir og stressaðir.
 
Umfjöllun: Kári Viðarsson
 
 
Mynd:  Jeremy Atkinson skoraði 40 stig fyrir Stjörnuna í kvöld. (Bára Dröfn)
Fréttir
- Auglýsing -